Eigandi Torrent.is hyggur á varnir

Svavar Lúthersson, eigandi netsíðunnar Torrent, hyggur á varnir fyrir héraðsdómi þegar lögbannsbeiðendur munu krefjast staðfestingar lögbanns á síðuna.

„Ég er ósáttur við lögbannið og jafnframt hversu víðtækt það var. Ég má til dæmis ekki taka á móti tölvupósti hjá léninu en það tengist ekkert meintri brotastarfsemi,“ segir hann.

Svavar segir að hann hefði orðið sáttari ef lögbannið hefði verið þrengra en raunin varð. Hann bendir á að SMÁÍS hafi alltaf átt kost á því að ákveðið efni yrði fjarlægt. „Og það hefur verið gert, jafnvel á opinberan hátt,“ segir hann.

Svavar segir að nú verði lögbannsbeiðendur að höfða staðfestingarmál fyrir héraðsdómi „Og við munum berjast gegn því að lögbannið verði staðfest,“ segir hann um fyrirhugaðar kröfur sínar.

Hróbjartur Jónatansson, lögmaður lögbannsbeiðanda, bendir á að lögð hafi verið fram óyggjandi gögn um að mesta niðurhalið, sem hinir 26 þúsund notendur Torrent hafa sótt í, sé höfundarréttarvarið. Þar sé átt við tónlist, sjónvarpsþætti, tölvuleiki og slíkt efni. „Eigandi síðunnar er að hvetja til þess að notendur í þessu svokallaða samfélagi dreifi höfundarréttarvörðu efni sín á milli,“ segir hann. „Auk þess hefur hann tekjur af því að veita fólki slíkan aðgang.“

Hróbjartur bendir á að í Finnlandi hafi dómstóll sakfellt 21 sakborning í álíka máli fyrir brot á höfundarréttarlögum sem hlutdeildarmenn. „Þannig að menn geta ekki skýlt sér á bak við það að þeir séu ef til vill ekki sjálfir að sækja efnið. En þeir eru að stuðla að því að efninu sé dreift.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert