Ný göng og tvöföldun

 Vaðlaheiðargöng og tvöföldun Suðurlandsvegar hafa verið sett á samgönguáætlun og vonast er til að framkvæmdir geti jafnvel hafist í haust. Áformað er að kynna þetta á blaðamannafundi í dag. Með því að setja framkvæmdirnar á samgönguáætlun er búið að taka ákvörðun um legu og framkvæmd þessara tveggja verkefna og setja þau í forgang. Samkvæmt heimildum 24 stunda hefur viðauki við gildandi samgönguáætlun þar sem þetta kemur fram verið samþykktur í þingflokkum beggja stjórnarflokkanna.

Tvöföldun Suðurlandsvegarins verður samkvæmt svokallaðri 2+2 lausn, sem þýðir að tvær akreinar verða í báðar áttir. Sá kafli sem ráðast á í nú mun ná frá Sandskeiði að Hveragerði. Framkvæmdin þarf ekki að fara í umhverfismat og því ætti að vera hægt að keyra hana nokkuð hratt áfram. 24 stundir skýrðu frá því í ágúst í fyrra að Kristján L. Möller hefði tilkynnt fulltrúum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) að til stæði að ráðast í tvöföldunina. Þá lá þó hvorki útfærsla né lega vegarins fyrir né hvort tvöföldunin yrði í heilu lagi eða áföngum. Í nóvember tjáðu samgönguráðherra og viðskiptaráðherra fulltrúum Sunnlendinga að líklegast yrði tvöföldunin boðin út í haust.

Samgöngumál höfuðborgarsvæðis skoðuð

Samgönguáætlun verður síðan tekin upp enn frekar í haust og þá verður ákveðið hvaða frekari framkvæmdir verður ráðist í. Samgönguráðherra ætlar að skipa nefnd með Sambandi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til að fara mjög náið yfir samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Í nefndinni munu sitja þrír fulltrúar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og þrír aðilar frá Vegagerðinni og samgönguráðuneytinu. Þetta verður í fyrsta sinn sem slíkur samstarfsvettvangur verður settur á fót.

Þá verða útfærslur á fjölmörgum tengivegum í landsbyggðarkjördæmum einnig kynntar. Um er að ræða stutta vegakafla, fimm til tíu kílómetra langa, sem smærri verktakar á landsbyggðinni ráða við að sinna. Þessar framkvæmdir þurfa heldur ekki að fara í umhverfismat og því hægt að ráðast í þær fljótlega til að mæta niðursveiflu í atvinnulífinu.

Í hnotskurn
Ráðist verður í gerð Vaðlaheiðarganga. Suðurlandsvegur verður tvöfaldaður frá Sandskeiði að Hveragerði. Framkvæmdin þarf ekki að fara í umhverfismat. Sérstök nefnd verður skipuð til að fara yfir samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Útfærslur á fjölmörgum tengivegum á landsbyggðinni verða kynntar. Framkvæmdirnar þurfa ekki í umhverfsimat.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert