Árni Johnsen viðurkennir að hafa sagt ósatt um hleðslusteina

Störf Árna Johnsen í byggingarnefnd Þjóðleikhússins sæta nú rannsókn.

Störf Árna Johnsen í byggingarnefnd Þjóðleikhússins sæta nú rannsókn.
mbl.is

Árni Johnsen alþingismaður viðurkennir að hafa sagt ósatt í fréttum Ríkisútvarpsins í gær þegar hann sagði að óðalssteinar, sem pantaðir voru hjá BM Vallá í maí, væru á brettum úti í bæ. Árni sagði í fréttum RÚV í dag að hann hefði notað steinana í hleðslu í garðinum heima hjá sér, þar sem verkefni sem nota átti þá í við Þjóðleikhúsið, hefði frestast. Árni sagði í fréttum RÚV í dag að um hefði verið að ræða mistök sem hann harmaði.

„Ég held að það sé kominn tími til að segja sögu þessara leyndardómsfullu steina; það er best að segja hverja sögu eins og hún er. Þegar ég pantaði steinana og sótti þá var sama dag gefin tilkynning um frestun á framkvæmdum sem við höfðum hugað að á svæði Þjóðleikhússins, svo ég ætlaði að koma þeim í geymslu. En fékk þá hugmynd um að nota samskonar steina og notaði þessa steina fyrir mig sjálfan," sagði Árni í samtali við fréttamann RÚV. Hann sagðist síðan hafa ætlað að panta aðra pöntun en ekki verið búinn að því þegar fjaðrafokið byrjaði, eins og hann orðaði það. „Í morgun þegar ég ætlaði síðan að gera pöntun hjá BM Vallá sem ég auðvitað greiði sjálfur, þá ákvað ég að skynsamlegra væri að borga reikninginn," sagði Árni. Hann sagði að nota hefði átt steinana í stéttina framan við austurtröppur Þjóðleikhússins, sem væru orðnar skemmdar. „Því miður gerðist svona, þetta eru mistök og ég harma það. Þetta er ekki eins og það á að vera en þannig er það og kannski fljótfærnislegt," sagði Árni. Hann sagði að vegna þess fjaðrafoks sem orðið hefði á síðustu dögum væri kominn tími á sig í byggingarnefnd Þjóðleikhússins. Þegar Árni var spurður hvort ástæða þessa fjaðrafoks væri ekki sú að hann hefði kosið að segja fjölmiðlum ósatt, svarði hann að hann hefði ekki sagt beint ósatt, heldur ekki sagt allan sannleikann. Hann hefði sagt að steinarnir væru á brettum, vegna þess að þegar þegar gengið væri að lager hjá fyrirtækinu sem seldi þessa steina, þá væru þeir geymdir þannig. Fréttamaður Ríkisútvarpsins spurði Árna hvort hann teldi að honum væri áfram sætt sem þingmaður eftir að hafa sagt þjóðinni ósatt. „Já, ég held að þetta mál sé ekki þess eðlis. Þegar standa öll járn á manni reynir maður ósjálfrátt að víkja sér undan og þetta er nú ekki alvarlegt. En þetta er ekki til fyrirmyndar," sagði Árni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert