Forsvarsmenn Óðals krefja sýslumanninn á Keflavíkurflugvelli skýringa

Lögmaður Veitingahússins Austurvallar ehf., sem rekur næturklúbbinn Óðal við Austurvöll, hefur sent sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli athugasemdir við málflutning fulltrúa hans um tengsl á milli nektardansmeyja með atvinnuleyfi á Íslandi annars vegar og vændis hér á landi hins vegar. Er þess krafist að rökstuðningur fyrir fullyrðingunum verði færður fram enda sé í senn vegið að rekstri staðarins og faglegum heiðri dansaranna.

Þá hefur Óðal sent frá sér yfirlýsingu og óska aðstandendur eftir því að koma eftirfarandi á framfæri: 1.
Núverandi starfsemi næturklúbbsins Óðals hefur verið rekin með lítt breyttu fyrirkomulagi í tæplega sex ár. Á þeim tíma hefur fyrirtækið aldrei komist í kast við lög og staðið í einu og öllu við lögbundnar skyldur sínar gagnvart starfsfólki sínu, dönsurum, viðskiptavinum og ríkisvaldi í tengslum við reksturinn. Með einni undantekningu, sem útilokað er að vitnað sé til í fyrrnefndum umræðum, hafa engir dansarar frá Eistlandi né öðrum Eystrasaltsríkjum verið á Óðali frá því útgáfa atvinnuleyfa hófst. 2.
Hjá Óðali starfa rúmlega 35 íslenskir starfsmenn auk þeirra erlendu dansara sem hingað koma í nokkrar vikur hverri. Hópurinn hefur lagt sérstakan metnað í að standa að rekstrinum með óaðfinnanlegum hætti, veita vandaða þjónustu og virða landslög um rekstur veitingahúsa og næturklúbba í hvívetna. Ásakanir eða dylgjur um vændi innan veggja Óðals eiga því við engin rök að styðjast. Enda þótt starfsfólk Óðals hafi ekki kveinkað sér undan einstaka áburði eða gróusögum á undanförnum árum um vændi innan veggja næturklúbba verður aldrei setið undir dylgjum um slíkt frá opinberum aðilum. Þess vegna verður einskis látið ófreistað til þess að losa Óðal undan þeim grunsemdum sem óhjákvæmilega vakna í kjölfar málflutnings síðustu daga. 3.
Einmitt vegna atvinnuleyfa ríkisvaldsins og vandaðs reksturs þeirra sem grundvalla starfsemi sína á slíkum leyfum er Ísland eftirsóttur áfangastaður nektardansmeyja í fremstu röð. Einmitt þess vegna koma sömu stúlkurnar ár eftir ár til Íslands og sinna starfi sínu við bestu fáanlegu aðstæður. Það væri stórt skref afturábak að stöðva útgáfu atvinnuleyfa til nektardansmeyja utan Evrópusambandssvæðisins en heimila á sama tíma eftirlitslausan nektardans allra þeirra tugþúsunda dansmeyja sem eru innan svæðisins og geta því t.d. starfað á Íslandi án sérstakra leyfa. 4.
Nektardansmeyjar um allan heim líta á atvinnu sína sem skýrt afmarkaða þjónustu sem á ekkert skylt við vændi eða mansal. Í þeirra huga eru tengsl á milli vændis og nektardans álíka mikil og á milli myndlistar og knattspyrnu eða snyrtifræði og sjómennsku. Þess vegna eru órökstuddar dylgjur um tengsl nektardansmeyja Óðals við vændi á Íslandi með öllu óþolandi aðför að orðstír þeirra stúlkna sem hlut eiga að máli hverju sinni. Aðstandendur Óðals hafa haldið sig utan daglegrar umræðu um starfsemi næturklúbba á Íslandi til þessa. Nú hefur hins vegar verið vegið að heiðri starfsfólksins og dansaranna með þeim hætti að orða verður ekki bundist lengur. Þess vegna verður kappkostað á næstu dögum að hreinsa Óðal af hvers kyns grunsemdum um ólögmæta starfsemi auk þess sem reynt verður að kynna eðli rekstursins og eyða fordómum eins og frekast er unnt. Ekki virðist veita af.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert