Konur sem leitað var að fundnar á Heklu

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Rangárvallasýslu fundu tvær konur sem báðu um aðstoð við að komast niður af Heklu um kl. 18.30 í kvöld. Björgunarsveitarmenn fundu konurnar, sem eru 26 ára gamlar og erlendir ferðamenn, vestan megin við hraunið, talsvert frá gönguleiðinni að bíl þeirra en þær höfðu skilið bíl sinn eftir við Rauðuskál sem er í hefðbundinni gönguleið á Heklu.

Konurnar voru á leið niður fjallið þegar þær villtust út af gönguleið og út í hraun sem er úfið og ógreiðfært. Þær voru þokkalega útbúnar og með síma meðferðis og gátu því haft samband við Neyðarlínuna sem hafði samband við lögregluna á Hvolsvelli og björgunarsveitir í Rangárvallasýslu. 30 björgunarsveitarmenn á fimm bílum tóku þátt í aðgerðinni. Einnig voru björgunarsveitir í Árnessýslu og á höfuðborgarsvæðinu í viðbragðsstöðu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert