Lögreglan skoðar tildrög þess að bíll fór út af veginum um Vattarnesskriður

Bílflakið í fjörunni, 130 metrum neðan við vegarbrúnina.
Bílflakið í fjörunni, 130 metrum neðan við vegarbrúnina. mbl.is/Albert

Rannsóknarlögreglan á Eskifirði skoðar nú gaumgæfilega tildrög þess að Audi-fólksbíll fór út af veginum um Vattarnesskriður í fyrrinótt og hafnaði í stórgrýttri fjöru, 130 metrum neðar. Ökumaðurinn sagðist hafa náð að kasta sér út áður en bíllinn fór niður skriðuna. Tekin var skýrsla af ökumanninum í gær, en hann hefur ekki verið kallaður til yfirheyrslu vegna gruns um sakamál á þessu stigi málsins.

Rannsókarlögreglumaður á Eskifirði sagði við Fréttavef Morgunblaðsins að verið væri að skoða þetta mál. Hins vegar hafi ekkert sérstakt komið fram sem bendi til þess að hugsanlega sé um tilraun til tryggingarsvika að ræða. Hann sagði að þetta hafi verið dýr bíll af Audi-gerð, árgerð 1996.

Ökumaður bílsins slapp ómeiddur þegar bíllinn fór út af veginum við svonefnda Líkkistu í Vattarnesskriðum, milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, og hrapaði niður snarbrattar og stórgrýttar skriður og endaði niðri í fjöru, um það bil 130 metrum neðan við veginn og er talinn gjörónýtur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert