Stjörnuspeki fyrir notendur Vits-þjónustu Símans

Síminn hefur tekið í notkun Vit-þjónustu um stjörnuspeki fyrir GSM-notendur Símans. Þjónustan, sem er hönnuð af fyrirtækinu StarTrak og Gunnlaugi Guðmundssyni stjörnuspekingi, byggist á fæðingardegi einstaklinga. Skoðað er stjörnukort hvers og eins notanda samkvæmt afstöðu himintunglanna daginn sem viðkomandi var í heiminn borinn, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Símanum.

"Hægt er að fá ýmiss konar upplýsingar með þjónustunni, byggðar á stjörnuspeki, til dæmis um persónuleika einstaklinga, hvernig þeim muni reiða af næstu daga og einnig er hægt að sjá hvernig fólk á saman. Þá slær viðskiptavinur inn fæðingardag og ár fyrir sig og maka sinn eða tilvonandi maka og fær upplýsingar um hvernig viðkomandi aðilar passa saman í ástum," segir í fréttatilkynningu.

Þá kemur fram að stefnt sé að því að bjóða þjónustuna í fjölmörgum löndum, meðal annars Bretlandi, Singapúr og Danmörku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert