„Ég var of værukær“

Guðni Th. Jóhannesson og eiginkona hans, Eliza Reid.
Guðni Th. Jóhannesson og eiginkona hans, Eliza Reid. mbl.is/ Eggert Jóhannesson

Guðni Th. Jóhannesson, nýkjörinn sjötti forseti Íslands, var gestur Páls Magnússonar á Sprengisandi á Bylgjunni í dag.

Guðni kveðst hafa verið örlítið órólegur yfir því að hann hafði ekki jafngott forskot á aðra frambjóðendur og við var búist samkvæmt skoðanakönnunum. „Já, sérstaklega þegar fyrstu tölur komu, þá var hnífjafnt, þá hugsaði ég: bíddu hvað er að gerast?“ sagði Guðni.

Hann segist ekki hafa orðið rólegur fyrr en Davíð Oddsson, reynslubolti mikill í stjórnmálum og mótframbjóðandi, hreinlega lýsti því yfir að sigur Guðna væri í höfn. 

Ýmsar skýringar fyrir minna forskoti

Guðni telur nokkrar skýringar vera á því hvers vegna mjórra var á munum en við var að búast. „Það er margt sem kemur til, ég var alltaf með þetta forskot í skoðanakönnunum, ég var of værukær, ég hélt að kannanirnar endurspegluðu afstöðu kjósenda og mætti þess vegna vera eins rólegur og raun bar vitni,“ segir Guðni. Þetta sé meðal þeirra atriða er hann varðar sem ollu því að forskot hans var minna þegar upp var staðið.

Þá spilaði líka inn í að Halla stóð sig einkar vel að mati Guðna, ekki síst á lokametrunum hafi hún náð að heilla fólk. „Þá er það þannig að fylgisbankinn var mestur hjá mér og líklegast að fylgið færi frá mér til hennar,“ sagði Guðni. „Það er líka þannig að maður byrjar á núlli en svo koma kannanirnar.“ 

Hann vissi þá að fylgi hans yrði aldrei svo hátt eins og sumar skoðanakannanir gáfu til kynna og minnist í því samhengi þess þegar Ólafur Ragnar náði flugi í skoðanakönnunum árið 1996 og mældist með 70% en hlaut á endanum ekki nema um 40%. „Kannanir segja ekki alla söguna,“ en Guðni þekkir sögu embættisins eflaust betur en flestir.

Hann segir þetta að vissu leyti svipað og í íþróttum, þegar vel gengur á maður það til að bakka aðeins, það sé mannlegt eðli.

Guðni fagnaði sigri á Grand hóteli í gær.
Guðni fagnaði sigri á Grand hóteli í gær. mbl.is/ Eggert Jóhannesson

Horfir til Vigdísar og Kristjáns

Hann telur að þrátt fyrir að hafa ekki hlotið meirihlutakosningu muni það ekki setja hann í erfiðari stöðu þegar fram líða stundir. Skemmtilegt hefði verið að hafa fylgi meirihluta þjóðarinnar en hans sýn á embættið hafi ef til vill ekki hugnast öllum. Hann kveðst þó meðvitaður um að svo getur vel komið upp að einhverjir sem studdu aðra frambjóðendur muni koma fram og benda á að hann valdi ekki embættinu. Heilt yfir vonast hann til að vera forseti allra og vera traustsins verður í embættinu.

Það takast á ólíkar skoðanir um embættið, þá sérstaklega hvort forseti eigi að standa utan hins pólitíska sviðs eða hvort hann láti sig pólitísk málefni varða og skilgreini sig eftir fylkingum. Guðni horfir til embættisins eins og það var í tíð Kristjáns Eldjárns og Vigdísar Finnbogadóttur, forseta sem ekki voru jafnfúsir til að stíga inn á hið pólitíska svið líkt og Ólafur Ragnar gerði. Forverar þeirra Kristjáns og Vigdísar létu sig ekki heldur vanta á hinu pólitíska sviði þegar svo bar undir.

Guðni er þeirrar skoðunar að forseti eigi að standa utan hins pólitíska sviðs og utan fylkinga, á Bessastöðum eigi að vera fulltrúi allrar þjóðarinnar og mikilvægt að þjóðin hafi ekki á tilfinningunni að forseti taki afstöðu með ákveðnum fylkingum. Forseti á þó ekki að vera skoðanalaus, hann lætur sig mannúð, menntun og jafnrétti varða en um þá þætti hljóta flestir að vera sammála.

„Forseti á ekki að vera í sama hlutverki og þingið,“ segir Guðni. Hann geti þó haft áhrif á að koma málefnum á dagskrá með samtali við þjóðina kalli hún eftir því að málefni sem á henni brennur þurfi að ræða í samfélaginu, en forseti á ekki að beita sér fyrir sinni persónulegu stefnu með pólitískum hætti, það sé hlutverk Alþingis að mati Guðna.

Í október gætu orðið erfiðar stjórnarmyndunarviðræður en Guðni kveðst tilbúinn í það verkefni að veita umboð til stjórnarmyndunar. „Ég kvíði þessu alls ekki, frekar að ég hlakki til,“ segir Guðni en hann óskar þess að ferlið gangi hratt og vel fyrir sig en er meðvitaður um að það gæti orðið strembið. Guðni segir að burtséð frá því hver hefði borið sigur úr býtum í gær þá sé vandasamt verk fram undan, þetta gæti orðið hans fyrsta glíma í embætti.

Guðni Th. með eiginkonu sinni, Elizu Reid, og börnunum þeirra …
Guðni Th. með eiginkonu sinni, Elizu Reid, og börnunum þeirra fjórum. mbl.is/Árni Sæberg

Davíð er enginn Ronaldo

Spurður um Davíð Oddsson og drengileg viðbrögð hans við úrslitunum segir Guðni að þó að kastast hafi í kekki milli hans og Davíðs í baráttunni, beri hann mikla virðingu fyrir Davíð. „Hann veit hvað hann syngur þegar kemur að pólitík. Hann vissi í gær að sigurinn yrði ekki hans áður en var byrjað að telja atkvæðin.“

Guðni segir einlæg viðbrögð Davíðs ekki hafa komið sér á óvart. „Nei, ég segi það hreina satt, ég vissi að eins lífsreyndur maður og Davíð Oddsson myndi taka niðurstöðunum með jafnaðargeði, Hann er enginn Ronaldo hann Davíð.“

Næst á dagskrá hjá nýkjörnum forseta er að fagna úrslitunum með fjölskyldu sinni, vinum og vandamönnum. Þá ætlar hann til Frakklands og fylgjast með karlalandsliðinu í fótbolta mæta Englendingum á morgun. Guðni segist bjartsýnn fyrir leikinn en hann verði þó erfiður.

Þá bíða hans næg verkefni þegar hann snýr til baka. Guðni þarf að kynna sér ýmis formlegheit, kynnast starfsfólki forsetaembættisins, flytja sig og fjölskyldu sína að Bessastöðum en einnig vonast hann eftir að ná að taka langþráð frí með fjölskyldunni.

Guðni Th. og Raggi Bjarna á kosningavöku Guðna á Grand …
Guðni Th. og Raggi Bjarna á kosningavöku Guðna á Grand hóteli. mbl.is/ Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert