„Þjóðin þolir ekki lengri bið“

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Með kosningunum sem fram undan eru fáum við tækifæri upp í hendurnar til að gera góðar breytingar. Panamaskjölin, hrunið og öll sérhagsmunagæslan sem viðgengist hefur, gerir það að verkum að þjóðin þolir ekki lengri bið eftir réttlæti og sanngirni.“

Þetta sagði Oddný G. Harðardóttir, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar, í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi rétt í þessu. Oddný var sú fyrsta til að tala í fyrstu umferð umræðnanna, sem skiptast í þrjár umferðir.

Tækifæri til að gera margt sem skiptir máli

Sagði Oddný að með kosningunum sem fram undan væru yrðu ákveðin kaflaskil og með þeim tækifæri til að gera margt sem skiptir máli. „Tækifæri til taka á spillingu og sérhagsmunagæslu. Tækifæri til að jafna leikinn á milli kynjanna og færa konum völd til jafns við karla, til að taka afdrifaríkar ákvarðanir í samfélaginu. Tækifæri til að samþykkja nýja stjórnarskrá og tækifæri til að vera samfélag sem okkur langar að búa í.“

Þá væri það ekki lögmál að Íslendingar búi við lakari kjör en þekkjast í hinum norrænu ríkjunum. „Það er engin ástæða fyrir því að fólkið okkar fái ekki bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á, að við getum ekki séð til þess að eldri borgarar hafi það gott, að barnafjölskyldur séu á vergangi á erfiðum húsnæðismarkaði, eða að góðærið nái bara til fárra. Þessu er vel hægt að breyta, því á Íslandi er til nóg af peningum – það þarf einfaldlega að skipta þjóðarkökunni með réttlátari hætti.“

Góðæri hafi aðeins náð til sumra

Oddný vék að því að hér hafi áður ríkt góðæri, en það hafi aðeins náð til sumra á meðan aðrir hafi setið eftir. „Þing er rofið og við göngum til kosninga vegna skorts á trausti og trúnaði milli þjóðarinnar og stjórnvalda, og vegna atburða þar sem spilling og skattaskjól voru í lykilhlutverki. Almenningur fékk innsýn inn í það hvernig auðmenn fara að, hvar þeir geyma peningana sína í skjóli fyrir skattinum og hvernig sumir þeirra láta aðra bera sinn hlut í velferðarkerfinu,“ sagði hún.

Þá sagði hún að ákvarðanir stjórnvalda á kjörtímabilinu hafi lagst einkum með þeim sem standa mjög vel, „og sérhagsmunagæslan sannarlega staðið vaktina, á meðan heilbrigðisþjónustan er í miklum vanda og menntakerfið líka. Menn tala um góðæri en nú situr fjöldi fólks heima í stofu og kannast ekki við þetta góðæri. Það er mál að linni.“

Spaugilegt að hlusta á forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar

Sagði hún að sér þætti það nánast spaugilegt á köflum að hlusta á forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar tala um afrek sín á þessu stutta kjörtímabili. „Þeir tala eins og það sé ofar mannlegum skilningi hve stórkostleg afrekin eru. Þegar orð þeirra eru dregin niður á jörðina og skoðuð í samhengi kemur hið sanna í ljós. Þeir fengu í heimanmund hallalausan ríkissjóð og því til viðbótar lágt olíuverð, metfjölda ferðamanna og fullt af makríl. Við slíkar aðstæður ætti í það minnsta velferðarkerfið að styrkjast og samgöngur batna, en svo er ekki. Þeir ríku verða bara ríkari og hitt látið danka.“

Sagði hún það hafa verið ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem kom á efnahagslegum stöðugleika. „Í kjölfarið var beygt til hægri. Næstu ríkisstjórnar bíður það verkefni að koma einnig á félagslegum stöðugleika, þar sem hugað er að velferð fólksins í landinu.“

Sagði Ísland eiga samleið með Evrópusambandinu

„Við búum í gjöfulu landi sem er auðugt af auðlindum og hér eru til nægir peningar. Og þá er meðal annars að finna í orkuauðlindum okkar, sem hafa verið niðurgreiddar til alþjóðlegra fyrirtækja. Stórir orkukaupendur hafa vissulega skapað hér störf, en þau eru einhæf og stærsti hluti arðsins hefur runnið úr landi, eins og dæmin sanna,“ sagði Oddný.

Þá talaði hún um íslensku krónuna, sagði hana dýra og hamla framförum. „Á meðan við erum ekki í stærra myntbandalagi verðum við að bera þann kostnað. Það er bjargföst trú mín að Ísland eigi samleið með Evrópusambandinu í framtíðinni. Þjóðin þarf hins vegar að taka sameiginlega ákvörðun um næstu skrefin í þeirri vegferð.“

Ísland hafi efni á að taka á móti flóttafólki

Oddný fór víða í ræðu sinni og talaði um auðlindirnar, skattkerfið, menntakerfið og ferðaþjónustuna svo eitthvað sé nefnt. Þá vék hún að flóttafólki og sagði Ísland hafa efni á því að taka á móti fólki sem flýr stríð eða hungur og leitar hjálpar. Loftslagsbreytingar þekki engin landamæri og vandi stríðshrjáðra heimshluta væri vandi okkar allra.

„Ég hef í hreinskilni sagt litla þolinmæði fyrir stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum sem ala á ótta og fordómum og etja saman þeim Íslendingum sem þurfa á velferðaþjónustu að halda og því fólki sem leitar hér ásjár í neyð. Ég treysti því að kjósendur muni hafna slíkum málflutningi í komandi kosningum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert