Deilt um gildi einkarekstrar

Frá fundinum í morgun.
Frá fundinum í morgun. mbl.is/Hjörtur

Fulltrúar stjórnmálaflokkanna voru ekki sammála um það hvort frekari einkarekstur væri æskilegur í heilbrigðiskerfinu á morgunverðarfundi Samtaka heilbrigðisfyrirtækja, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins á Grand hóteli en fundurinn var haldinn í tilefni þess útgáfu nýrrar greiningar efnahagssviðs SA á heilbrigðiskerfinu. Fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem mælst hafa yfir 5% í skoðanakönnunum tóku þátt í pallborði.

Tryggvi Másson, viðskiptafræðingur á efnahagssviði SA, flutti fyrsta erindi fundarins og fór yfir helstu atriði greiningarinnar og þær áskoranir sem framundan væru í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Þær væru ekki síst öldrun þjóðarinnar og sú staðreynd að sífellt fleiri ættu við offitu að stríða. Þrjár leiðir væru færar til þess að bæta fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Hækka skatta, hækka gjaldtöku eða auka hagræðingu og stuðla að betri meðferð fjármuna.

Tryggvi sagði Ísland þegar háskattaland og því væri ekki æskilegt að hækka skatta. Ekki væri stuðningur við aukna gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu og því ætti að vera hægt að ná fram samstöðu um þriðju leiðina. Það er að auka hagræðingu og meðferð þeirra fjármuna sem settir væru í heilbrigðismálin. Lagði hann ennfremur áherslu á mikilvægi þess að kerfið snerist fyrst og fremst um sjúklinginn og þjónustu við hann en ekki heilbrigisstofnanirnar.

Þannig væri æskilegt að fjármagn væri látið fylgja sjúklingnum til þess að stuðla að aukinni samkeppni og hvata til að gera betur. Um leið þýddi það aukið valfrelsi sjúklingsins, neytandans, til þess að leita sér aðstoðar sem hentaði honum. Tryggvi lagði ennfremur áherslu á að einkarekstur væri ekki það sama og einkavæðing. Einkarekstur þýddi einungis að hið opinbera semdi við einkaaðila um að tala að sér tiltekna þjónustu við sjúklinga.

Skilgreina þurfi hvernig nýta eigi fjármagn

Fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna sem þátt tóku í pallborði lýstu vilja sinna flokka til þess að bæta heilbrigðiskerfið og mikilvægi málaflokksins. Talsvert skiptar skoðanir voru hins vegar um það hvaða leið væri best fær í þeim efnum. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði sinn flokk ekki hlynntan frekari einkarekstri í heilbrigðiskerfinu. Hún lagði ennfremur áherslu á mikilvægi gæðaeftirlits með einkarekstri.

Spurð hvort ekki væri rétt að gæðaeftirlit næði til heilbrigðiskerfisins alls, þar með talið Landspíalans og opinbera hlutans sagði Sigríður að svo ætti vissulega að vera. Hins vegar væri fyrirkomulag einkareksturs allt annað og ekki væru gerðar nægjanlega skýrar kröfur í þeim efnum. Vildi hún meina að eftirlit með einkarekstri væri ábótavant. Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, tók í svipaðan streng og sagði einkarekstur þýða verri þjónustu við efnaminni. Flokkur hennar væri því ekki hlynntur frekari einkarekstri í heilbrigðisgeiranum. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að ekki væri nóg að setja endalausa peninga í heilbrigðiskerfið heldur yrði að skilgreina hvaða árangri það fjármagn sem sett væri í kerfið ætti að skila. Þetta sýndu ítrekaðar skýrslur um málaflokkinn. Hann kom inn á forvarnir og sagði þær snúast fyrst og fremst um hugarfarsbreytingu hjá þjóðinni. Ríkið gæti aldrei stýrt því. Hvatning og aðrar slíkar jákvæðar aðferðir væru lykilatriði í þeim efnun.

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, sagðist eiga erfitt með að líta á sjúklinga sem neytendur þar sem fólk veldi ekki það hlutskipti. Sagðist hún eiga erfitt með að skilja þá skilgreiningu á sjúklingum. Hún sagðist ennfremur ósammála því að ríkið léki ekki lykilhlutverk í forvörnum. Fræðsla af hálfu hins opinbera skipti miklu máli í þeim efnum. Kjarni stefnu Pírata væri að forsenda heilbrigðs heilbrigðiskerfis væri heilbrigt fólk.

Fólki auðveldað að lifa heilbrigðu lífi

Sigríður Ingibjörg sagði fólk stundum þurfa að þora að beita forræðishyggju í forvarnarmálum. Það hefði verið gert í tengslum við reykingar og áfengisneyslu og fara ætti sömu leiðis varðandi offitu. Ekki væri nóg að berjast bara gegn slíku með viðhorfsbreytingu. Þá yrði að skoða verðlagninguna í þeim efnum. Til dæmis sykurskatt. Hanna Katrín Friðriksson, frambjóðandi Viðreisnar, sagði forgangsröðum vera lykilatriði í heilbrigðisþjónustunni þegar kæmi að þjónustu við sjúklinga og meðferð fjármagns.

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, lagði áherslu á mikilvægi þess að skilgreina hvaða þjónustu ætti að veita til að mynda á Landspítalanum og hvaða þjónustu á heilsugæslustöðvum. Hún lagði áherslu á að forvarnir þýddu minna álagi á heilbrigðiskerfið í framtíðinni og með því væru fjármunir sparaðir.

Sigrún Gunnardóttir, frambjóðandi Bjartrar framtíðar, sagði mikilvægt að gera fólki auðvelt að velja heilbrigt líferni. Til að mynda að fólk hefði völ á góðum mat á verðlagi sem það réði við. Til að mynda með sykurskatti. Möguleikar á hreyfingu og útiveru spiluðu þar einnig inn í ásamt fleiru. Varðandi heilbrigðiskerfið lagði hún mikla áherslu á mönnun þess og að tryggt væri að starfsmenn byggju við gott starfsumhverfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert