„Treystum þjóðinni“

Birgitta Jónsdóttir segir Pírata ekki ólíka hreyfingunni sem fór af …
Birgitta Jónsdóttir segir Pírata ekki ólíka hreyfingunni sem fór af stað þegar Bernie Sanders bauð sig fram til forseta í Bandaríkjunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Bernie Sanders Íslands er Pírati, ljóðskáld og mögulega næsti leiðtogi landsins.“ Þannig hljómar fyrirsögn greinar í Washington Post, þar sem rætt er við Birgittu Jónsdóttur.

Í viðtalinu rekur Birgitta hvernig Pírataflokkurinn var fyrst stofnaður í Svíþjóð árið 2006, með það að markmiði að breyta höfundarréttarlögum landsins. Hún segir rætur hans hins vegar liggja í mannréttindum og að það sé stefna flokksins að hinir valdamiklu sæti lögum og reglum, frekar en einstaklingar.

„Treystum þjóðinni,“ segir Birgitta, spurð að því hvernig hún muni snúa sér gagnvart umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, ef hún verður í leiðtogastöðu eftir kosningarnar í haust.

Hún ítrekar þó að Íslendingar verði að forðast að gera þau mistök sem gerð voru í Bretlandi í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit. „Þú verður að tryggja að baráttan sé upplýst. Fólk þarf að vita hvað felst í aðild.“

Birgitta segir það stefnu Pírata að veita uppljóstraranum Edward Snowden hæli ef hann óskar eftir því hér á landi. En mun hann sækja um?

„Það kemur í ljós. Það yrði örugglega táknrænt nema þú fengir bandarísk stjórnvöld til að gangast við því að það væri betra fyrir þau að hafa hann í hlutlausu landi sem býr ekki að leyniþjónustu og er ekki í köldu stríði við þau, eða nýju netstríði. Hann hefur leitt til breytinga og meðvitundar, sem er mjög mikilvægt nú til dags, og stundum þarf að leggja egóið á hilluna, jafnvel þegar um er að ræða valdamikið fólk, og við þurfum að skoða heildarmyndina.“

Birgitta segir Pírata um margt líka hreyfingunni í kringum forsetaframbjóðandann Bernie Sanders, þar sem grasrótin tók virkan þátt og ekki síst unga fólkið. Hún segir ástæðu þess að hún sé að ræða við erlenda blaðamenn í aðdraganda kosninga á Íslandi sé að koma þeim skilaboðum á framfæri að einstaklingar geta skipt sköpum; að það sem virðist ómögulegt einn daginn gæti orðið mögulegt þann næsta.

„Fólk vill breytingar og það hefur skilning á því að við þurfum að breyta kerfinu,“ segir Birgitta um hið mikla fylgi sem Píratar mælast með. „Okkur er sama hvaðan stefnumörkunin kemur, það skiptir ekki máli hvort hún kemur frá stjórnarflokknum eða andstöðunni eða okkur sjálfum. Við viljum blása öðrum í brjóst viljann til að vera með okkur, en við viljum styðja góð mál sama hvaðan þau koma. Kannski gæti Ísland verið tilraunastaður fyrir lausnir, því við erum fá og erum tæknimiðuð þjóð. Allir eru tækja-frík. Við verjum miklum tíma inni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert