Tveir formenn án þingsætis

Nokkrar breytingar hafa orðið milli vikna á hópi þeirra sem könnun Félagsvísindastofnunar sýnir að ná muni manni inn á þing í kosningum á morgun, laugardag.

Verði úrslit kosninga í samræmi við niðurstöður þessarar nýjustu könnunar er ljóst að formaður Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson, nær ekki kjöri í Norðausturkjördæmi.

Þá sýnir þessi nýjasta könnun að Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, nær ekki kjöri í Suðurkjördæmi en sú var einnig raunin í fyrstu könnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Morgunblaðið. Hins vegar sýndi niðurstaða könnunarinnar í síðastliðinni viku að hún næði kjöri.

Lilja úti en Karl inni

Könnunin sýnir jafnframt að verði úrslit kosninga á laugardag í samræmi við hana verður Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, án þingsætis, en hún býður sig fram í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Af fleiri þingmönnum má nefna að niðurstaða könnunarinnar sýnir að Karl Garðarsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík norður, nær kjöri en það var ekki reyndin í síðustu könnun. Sama má segja um þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þau Vilhjálm Árnason og Unni Brá Konráðsdóttur í Suðurkjördæmi og Sigríði Á. Andersen í Reykjavík suður.

Könnunin sýnir enn sem fyrr að Samfylkingarþingmennirnir Össur Skarphéðinsson, Valgerður Bjarnadóttir og Helgi Hjörvar nái ekki kjöri í Reykjavíkurkjördæmunum.

Þá eru enn utan þings þeir Birgir Ármannsson og Vilhjálmur Bjarnason í Sjálfstæðisflokki. Sömu sögu segir af Óla Birni Kárasyni í Suðvesturkjördæmi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Breytingar milli vikna

Helstu breytingar í þingmannafjölda á landsvísu eru þær að Vinstri græn missa tvo þingmenn, séu niðurstöður þessarar könnunar bornar saman við könnunina fyrir viku. Fara þingmenn Vinstri grænna úr 13 í 11. Sjálfstæðisflokkur bætir við sig einum þingmanni frá síðustu könnun, það er úr 15 í 16 þingmenn. Píratar missa einn mann, fara úr 15 þingmönnum í 14.

Þá bætir Framsóknarflokkur við sig manni frá síðustu könnun, fer úr 6 þingmönnum í 7. Sömu sögu er að segja um Viðreisn, sem bætir við sig einum manni frá síðustu könnun, fer úr 6 þingmönnum í 7. Björt framtíð mælist með 4 þingmenn eins og í síðustu viku. Sömu sögu segir af þingmannafjölda Samfylkingar, sem mælist með 4 þingmenn eins og fyrir viku.

Verði úrslit kosninganna í takt við skoðanakönnunina myndi 31 nýr þingmaður taka sæti á Alþingi. Af 63 þingmönnum yrðu 35 karlar og 28 konur. Það er mjög svipað kynjahlutfall og er á þingi í dag, eða 34 karlar á móti 29 konum.

Sumir væru þó ekki alveg nýir þingmenn. T.d. hafa Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Jón Þór Ólafsson áður setið á Alþingi og nokkrir aðrir verið varaþingmenn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert