Föst skot á milli forystumanna

Frá fundi formannanna.
Frá fundi formannanna. mbl.is/Eggert

Forystumenn stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi skutu föstum skotum á hvorn annan í gærkvöldi í kjölfar langra fundahalda um það með hvaða hætti staðið yrði að þinglokum. Beindust skotin einkum að Bjarna Benediktssyni, forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins. Samkomulag náðist að lokum á sjöunda tímanum en ljóst er af skeytasendingunum að ekki eru allir sáttir við lendinguna.

Þannig sakaði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, Bjarna um hafa með ógeðfelldum brögðum neytt aðra flokka til samkomulags um þinglok með því að „nota bága stöðu barna í neyð sem póli­tíska skipti­mynt.“ Undir þetta tók Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, en Birgitta og Logi kusu að skrifa ekki undir samkomulagið um þinglok. Forystumenn annarra flokka undirrituðu samkomulagið.

Vísuðu Birgitta og Logi þar til fyrirhugaðra breytinga á lögum um útlendinga sem snúa að stöðu barna í röðum hælisleitenda. Um tímabundið ákvæði er að ræða sem gildir fram yfir þingkosningar. Einkum Píratar og Samfylkingin vildu setja inn bráðabirgðaákvæði í stjórnarskrána um að hægt yrði að breyta henni á næsta kjörtímabili með auknum meirihluta á Alþingi og þjóðaratkvæði án nýrra þingkosninga.

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, tjáði sig einnig um málið á Facebook í gærkvöldi líkt og Birgitta og Logi og sagði Bjarna hafa hótað „að ógna lífi barna og neita þolendum kynferðisofbeldis um réttlæti, ef ekki yrði fallið frá mjög eðlilegri kröfu um lýðræðisúrbætur.“ Píratar og Samfylkingin ætla að freista þess að gera lokatilraun til þess að fá stuðning við stjórnarskrármálið á þingfundi sem hefst í dag klukkan 13:30.

Bjarni brást illa við þessum ásökunum Birgittu og Loga á Facebook og spurði hvort ekki væri komið nóg af slíkum málflutningi. „Hvað eiga svona skrif að þýða? Er þetta framlag til bættrar þjóðfélagsumræðu - leiðin til að endurheimta traust á stjórnmálum?“ Benti hann á að meirihluti þingsins gæti sett mál á dagskrá. Hins vegar væru flestir flokkanna á þingi sammála um að afgreiða ákveðin mál en láta stjórnarskrána bíða.

Benti hann á að fyrir skömmu hafi hann lagt fram tillögu að verklagi við að breyta stjórnarskránni sem Píratar hafi lagst gegn. „Það er mín skoðun að ef hrófla á við einhverju í stjórnarskránni skuli vandað til verka, gefinn tími til umsagna og nefndameðferðar. Er það svo að þeir sem fara fram á vandað verklag við breytingar á stjórnarskrá verðskuldi ásakanir um að skeyta engu um líf barna eða fálæti vegna kynferðisbrota?“

Friðjón R. Friðjónsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna og núverandi almannatengill, lagði einnig orð í belg á Facebook þar sem hann brást við ummælum Birgittu og Loga um að Bjarni hefði norfært sér önnur mál til að stöðva stjórnarskrármálið. „Getur verið að menn hafi verið að nota grafalvarlega mál eins og öryggi og velferð barna til að reyna að koma gæluverkefnum eins og nýrri stjórnarskrá í gegnum þingið?“

Samkomulagið um þinglok gerir ráð fyrir að afgreitt verði lagafrumvarp um að afnema uppreist æru úr lögum og verða allir forystumenn flokkanna flutningsmenn. Ennfremur að gerðar verði áðurnefndar breytingar á útlendingalögum vegna barna í röðum hælisleitenda. Önnur mál sem tekin verða fyrir snúa að þingkosningunum eða formsatriðum. Gert er ráð fyrir að málin verði afgreidd í dag og að Alþingi verði síðan slitið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert