Allir vilja fjölga hjúkrunarrýmum

Málþing um stefnu Íslands í þjónustu við veika einstaklinga og …
Málþing um stefnu Íslands í þjónustu við veika einstaklinga og aldraða. mbl.is/Eggert

Flestir fulltrúar stjórnmálaflokkanna voru sammála um að auka þyrfti fé til uppbyggingar á hjúkrunarrýmum. Þetta kom fram í máli fulltrúa stjórnmálaflokkanna á málþingi um stefnu Íslands í þjónustu við veika einstaklinga og aldraða.

Einkavæðing heilbrigðiskerfisins bar einnig á góma og nefndu margir að vinda þyrfti ofan af einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og auka þjónustu og aðgengi fólks að sérfræðilæknum innan heilbrigðiskerfisins.

Milljarðar og íbúðir fyrir aldraða

Hildur Sverrisdóttir, fulltrúi  Sjálfstæðisflokksins, sagði að þremur milljörðum yrði veitt í byggingu nýrra hjúkrunarrýma. Þetta væri eitt af fáum kosningaloforðum flokksins. 

Kristbjörg Þórisdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins, benti á að flokkurinn vildi byggja 300 nýjar íbúðir fyrir aldraða það yrði gert í samvinnu við Lífeyrissjóðina. Hún nefndi að þeir sem væru veikir ættu ekki að borga fyrir læknisþjónustu. Settur yrði einn milljarður í verkefni tengdu tannlæknaþjónustu eldriborgara þá yrði frítekjumarkið fyrir aldraða afnumið sem meðal annars gæti stuðlað að aukinni velferð aldraðra sem langaði til að halda áfram að taka þátt í samfélaginu með því að vinna. 

Efla og styrkja þyrfti heilbrigðiskerfið, fjölga þyrfti sérfræðingum á geðsviði og að þeir starfi sem mest á Landspítalanum en ekki á einkareknum stofum, að mati Kristbjargar. Hún vill einnig að sálfræðingar verði starfandi á heilsugæslustöðvum og þjónusta þeirra yrði að hluta niðurgreidd fyrir almenning.

Vantar stefnumörkun

Stefnumörkun í heilbrigðismálum hefur verið takmörkuð og þessu þyrfti að breyta. Þetta kom einnig fram í máli flestra stjórnmálamannanna. Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, benti einnig á þetta og sagði: „Það er ómögulegt að þessi ríka þjóð komi svona fram við aldraða,“ sagði Oddný. 

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingkona Vinstri grænna, tók dýpra í árinni og sagði mikilvægt að heilbrigðiskerfið myndi snúa af braut hagnaðar þar sem fjársterkir einstaklingar gætu keypt sér þjónustu sem öðrum stæði ekki til boða. Í því samhengi væri brýnt að jafna kjör þeirra sem væru lágt launaðir, aldraðir og öryrkjar því þeir ættu ekki að festast í fátækragildru.

Hún vill sjá átak í uppbyggingu á dvalar- og hjúkrunarrýmum líkt og aðrir bentu á. Stórefla þyrfti heimahjúkrun, heimaþjónustu og dagþjónustu svo dæmi væru tekin. 

„Það sem skortir er að fara djúpt í umræðuna um heilbrigðismál,“ sagði Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra. Hann benti á að það skorti heildarhugsun í þessum málaflokki einkum varðandi aldraða og nefndi sem dæmi um að efla þyrfti forvarnir sem myndi borga sig.

„Við lifum í kössum um að ekki megi auka útgjöld í einum kassa en ekki hinum. Það er aukinn kostnað varðandi örorku en við náum ekki utan um það því við þurfum að horfa á þetta sem eina heild,“ sagði Þorsteinn. 

Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert