Hyggjast leysa húsnæðisvandann

Húsnæði í Reykjavík.
Húsnæði í Reykjavík. mbl.is/Ómar Óskarsson

Áherslur flokkanna í húsnæðismálum fyrir komandi alþingiskosningar eru misjafnar ef skoðaðar eru heimasíður þeirra. Málaflokkurinn hefur verið mikið í umræðinu í þjóðfélaginu undanfarin misseri. Sérstaklega hefur verið rætt um erfiðleika ungs fólks við að komast inn á húsnæðismarkaðinn og hátt verð á leigumarkaðnum.

Svissneska leiðin

Framsókn leggur svokallaða svissneska leið fram. Í henni felst að ungu fólki verði heimilt að taka út iðgjaldið sem það hefur lagt í lífeyrissjóð og nýta sem útborgun við íbúðarkaup. Fjárhæðin ber ekki vexti og er án afborgana. Við sölu íbúðarinnar er iðgjaldinu skilað aftur inn í lífeyrissjóðinn. Á heimasíðu Framsóknarflokksins segir að þessi leið hafi nýst vel í Sviss til að auðvelda fólki að eignast húsnæði.

Lægri byggingarkostnaður og aukið framboð

Í kosningaáherslum Sjálfstæðisflokksins kemur fram að flokkurinn vilji auðvelda ungu fólki að kaupa fyrstu íbúðina sína en tryggja einnig að það eigi kost á leiguhúsnæði á virkum leigumarkaði. „Lækka verður byggingarkostnað og tryggja aukið framboð á lóðum og íbúðum.  Um leið verði ungu fólki auðvelduð fyrstu íbúðarkaup með bæði skattalegum og vaxtalegum hvötum til sparnaðar, sem standi undir útborgun við fyrstu kaup,“ segir í kosningaáherslunum.

Fyrirframgreiddar vaxtabætur

Samfylkingin segist í sínum kosningaáherslum vilja að nýttar verði fyrirframgreiddar vaxtabætur til að fjármagna útborgun við húsnæðiskaup fyrir þá sem ekki eiga. Flokkurinn ætlar að veita þeim sem eiga ekki íbúð og ættu rétt á vaxtabótum forskot á fasteignamarkaði sem nemur allt að þremur milljónum króna.

Með því að greiða vaxtabætur næstu fimm ára út fyrirfram  er hægt, samkvæmt Samfylkingunni, að styrkja fólk til að kaupa á íbúð um 3 milljónir króna fyrir fólk í sambúð, 2,5 milljónir króna fyrir einstætt foreldri og 2 milljónir fyrir einstakling. „Þrjár milljónir króna er til dæmis útborgun í 20 milljón króna íbúð m.v. 85% lán, eða stór hluti útborgunar í dýrari eign.“

Samfylkingin vill einnig fjölga almennum leiguíbúðum um 4.000 á kjörtímabilinu auk 1.000 námsmannaíbúða um allt land.

Auð húsnæði á almennum markaði

Í stefnuskrá Pírata kemur fram að bæta skuli aðstæður á almennum leigumarkaði með það að markmiði að húsnæði sem nú standi auð og án búsetu séu í boði á almennum markaði. „Festa skal stimpilgjöld og lántökukostnað í fastri og eðlilegri upphæð svo lánhafar geti fært sig á milli lánastofnanna og til verði eðlilegur neytendamarkaður."

Félagslegt fjármagn til húsnæðiskaupa

Fram kemur í kosningastefnuskrá Alþýðufylkingarinnar að til að ráða bót á húsnæðisvandanum komi með félagsvæðingu fjármálakerfisins félagslegt fjármagn til húsnæðiskaupa og til að byggja félagslegt leiguhúsnæði. „Alþýðufylkingin mun beita sér fyrir því að fyrir árið 2020 eigi allir kost á vaxtalausu láni til hóflegra íbúðarkaupa, eða félagslegu leiguhúsnæði þar sem leigan þarf ekki að standa undir vaxtaokri,“ segir í stefnuskránni. 

Tvöföld stofnframlög og þak á hækkun leigu

Vinstri grænir leggja áherslu á að tryggja þurfi húsnæðislán fyrir alla tekjuhópa þannig að þeir sem vilji eignast húsnæði eigi þess kost. Einnig segja þeir að  tvöfalda þurfi stofnframlög til uppbyggingar leiguhúsnæðis svo að raunverulegir valkostir verði í boði fyrir ungt fólk á húsnæðismarkaði.

„Húsnæðisbætur þarf að hækka og samræma fyrir eigendur og leigjendur. Markmiðið er að húsnæðiskostnaður fari ekki yfir fjórðung af ráðstöfunartekjum. Mikilvægt er að styðja við uppbyggingu húsnæðis á félagslegum forsendum í samvinnu við verkalýðsfélög og sveitarfélög. Lögfesta á heimildir til sveitarfélaga til að setja ákveðið þak á hækkun leigu til að tryggja öryggi á leigumarkaði,“ segir á heimasíðu Vinstri grænna, sem leggja einnig áherslu á að bæta húsnæðismál fyrir fólk með geðraskanir og þeirra sem glíma við fíkn.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði á dögunum að brýnt væri að marka sýn til lengri tíma í húsnæðismálum í samvinnu við samtök á borð við Samtök atvinnulífsins.

Vaxtalækkun lykilatriði

Áhersluatriði Miðflokksins í húsnæðismálum eru á þann veg að vaxtalækkun sé þar algjört lykilatriði til að bæta kjör almennings.  Einnig er talað um að nýta séreignasparnað í húsnæði og að byggingarreglugerðir  verði raunhæfari. Framkvæmdir verði betur dreifðar og að þétting byggðar verði endurskoðuð.

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Standist samanburð innan Norðurlanda

Viðreisn vill að Ísland verði fjölskylduvænt samfélag sem stenst samanburð innan Norðurlanda, meðal annars í húsnæðismálum, og hefur flokkurinn lagt áherslu á húsnæði fyrir alla. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, greindi frá því í viðtali við Morgunblaðið í morgun að flokkurinn ætli sér að leysa húsnæðisvandann, sérstaklega hjá ungu fólki. Einnig nefndi hún að flokkurinn vilji lækka vexti.

Lágir raunvextir til langs tíma

Í áherslum Bjartrar framtíðar fyrir kosningarnar segir að gert verði að ófrávíkjanlegu markmiði að hérlendis komist á húsnæðismarkaður með lágum raunvöxtum til langs tíma. Einnig kemur til álita að fólk geti valið að hluti inngreiðsla í lífeyrissjóði renni til afborgana af húsnæðislánum, stimpilgjöld verði afnumin og að það markmið verði sett að góður og fjölbreyttur leigumarkaður verði til.

Félagslegt kaupleigukerfi

Flokkur fólksins greinir frá því í áhersluatriðum sínum að komið verði á fót félagslegu kaupleigukerfi og leigumarkaði sem hefur ekki hagnað að leiðarljósi.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði í síðasta mánuði að flokkurinn vilji „taka til hendinni í sambandi við húsnæðismál“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert