Miðflokkurinn fær enga sérmeðferð

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á fundi formanna á RÚV.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á fundi formanna á RÚV. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miðflokkurinn mun ekki koma við sögu í neinum þeirra fjögurra málefnaþátta sem RÚV sýnir vegna komandi alþingiskosninga.

Heiðar Örn Sigurfinnsson, kosningaritstjóri RÚV, segir að upptökum á þáttunum sé lokið og því miður hafi Miðflokkurinn ekki náð að mæta með sinn fulltrúa. Flokkurinn hafi aftur á móti verið með fulltrúa í öðrum þáttum á stöðinni sem voru sendir út í beinni útsendingu.

„Ef við ætlum að setja upp sérstakar tökur fyrir Miðflokkinn værum við að brjóta jafnræði sem við erum að beita gagnvart öllum flokkum,“ segir Heiðar Örn og tekur fram að allir flokkarnir hafi fengið að vita af upptökum á málefnaþáttunum með sama fyrirvara.

Miðflokkurinn sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem hann sagði að flokknum þyki leitt að í þáttunum hafi verið tilkynnt, án eðlilegra útskýringa, að Miðflokkurinn hafi hafnað þátttöku. Þar kom fram að þættirnir hafi verið teknir upp töluverðu áður en framboðsfrestur rann út. Þar sem Miðflokkurinn hafði enga birta málefnastefnu eða staðfesta frambjóðendur hafi flokkurinn ekki talið ábyrgt að taka þátt í upptökunum.

RÚV.
RÚV. mbl.is/Eggert

Ætluðu að mæta með fulltrúa

Heiðar Örn segir að kosningastjóri Miðflokksins hafi greint frá því kvöldið fyrir upptökuna á fyrsta þættinum 5. október að fulltrúi Miðflokksins myndi mæta. Ekkert varð af því vegna forfalla. RÚV ýtti þá á Miðflokkinn að koma með fulltrúa í næsta þátt og þá var einnig lofað að hann myndi mæta en ekkert varð heldur af því. Í kjölfarið sendi flokkurinn frá sér tilkynninguna á Facebook sem mbl.is greindi frá í gærkvöldi.

„Við ákváðum að taka þá prinsipp afstöðu að koma jafnt fram við alla og láta þá vita að þeir gætu ekki fengið sérmeðferð,“ segir hann en bætir við að í sama svarpósti til Miðflokksins hafi verið ítrekað að honum stæði enn til boða að koma í síðustu upptöku þann sama dag, 6. október, og í upptökur fyrir næstu tvo þætti á eftir. Flokkurinn hafi ekki nýtt það tækifæri. 

Árétting á vef RÚV

Í áréttingu sem Heiðar Örn skrifaði á vef RÚV kemur fram að RÚV þyki leitt að Miðflokkurinn hafi ekki séð sér fært að senda fulltrúa í þættina. „Við fögnum því hins vegar að flokkurinn hefur, eins og önnur framboð, sent fulltrúa í leiðtogaumræður og kjördæmaþætti með frambjóðendum í Reykjavík norður og Norðausturkjördæmi (þó málefnin hafi þá ekki verið kynnt).“

Heiðar Örn bætir við í samtali við mbl.is að skammur tími hafi verið fyrir RÚV að gera þættina vegna þess hve stutt er í kosningar og því hafi ekki verið hægt að bíða eftir því að framboðsfrestur rynni út. „Það að upptaka hefjist á þessum tíma er alls ekkert óeðlilegt miðað við hvað það tekur langan tíma að framleiða svona þætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert