Hærri skatttekjur vegna betra árferðis

Smári McCarthy.
Smári McCarthy. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stór hluti af auknum skatttekjum sem Píratar boðuðu í tillögum sínum til fjárlaga fyrir löggjafaþingið 2017 til 2018, þar á meðal varðandi tekjuskatt og virðisaukaskatt, er til kominn vegna betra árferðis. Þetta segir Smári McCarthy, Pírati.

Píratar tala um 22% hærri tekjur vegna fjármagnstekjuskatts, en sá skattur er meðal annars tekinn af leigutekjum. „Í dag er helmingsafsláttur af fjármagnstekjuskatti af leigutekjum og við viljum halda þeirri prósentu,“ segir Smári og nefnir að hækkunin sem um ræðir sé eingöngu af því sem kalla má almenna þrepinu.

Píratar reikna einnig með auknum tekjum vegna tekjuskatts lögaðila upp á tvö prósent miðað við fjárlög ársins 2017. Smári segir að Píratar ætli ekki að hækka skatta á fyrirtæki heldur telji þeir að hægt verði að ná hækkuninni fram með betra skattaeftirliti, meðal annars með því að loka á þekktar leiðir til að sniðganga skatta, þar á meðal þunna eiginfjármögnun.

Frá fundi Pírata í gær.
Frá fundi Pírata í gær. mbl.is/Eggert

Í tillögum Pírata að fjárlögum kemur einnig fram að tekjur vegna virðisaukaskatts verði 10 prósent hærri en í fjárlögunum 2017, eða 240 milljarðar króna í stað 218 milljarða króna. Smári segir Pírata ekki hafa talað um að lækka virðisaukaskatt sérstaklega og heldur ekki talað um að hækka hann á ferðaþjónustu. Hún hafi verið í miklum vexti en núna virðist vera að draga úr aukningu ferðamanna til landsins.  

„Við þurfum að gefa ferðaþjónustunni tækifæri til að klára sínar fjárfestingar og komast á betri stað áður en við breytum þeirra virðisaukaskattsflokkum. En það kæmi alveg til greina af okkar hálfu að breyta virðisaukaskatti til lækkunar og þá sérstaklega á mat,“ segir hann en tekur fram að það sé ekki í þeirra tillögum fyrir komandi kosningar.

Smári bendir einnig á að Píratar hafi áhuga á því að minnka endurgreiðsluhlutfallið vegna virðisaukaskatts sem ferðamenn greiða á Íslandi úr 14% niður í 7 til 8% eins og raunin er í  flestum löndum í kringum okkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert