Baneitraður kokteill skattalækkana

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir stjórnina bjóða upp á baneitraðan …
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir stjórnina bjóða upp á baneitraðan kokteil skattalækkana og útgjaldaaukningar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Það er á tímum góðæris sem stærstu efnahagsmistök stjórnvalda eru gerð. Þetta sagði Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, í ræðu sinni á Alþingi í dag. Íslendingar eigi raunar fjöldann allan af málsháttum sem hvetji til varfærni.

Íslendingar búi vissulega um margt við öfundsverða stöðu um þessar mundir. „Efnahagslífið er í miklum blóma. Kaupmáttur hefur aldrei mælst hærri og tekjujöfnuður sjaldan meiri. Fjárhagsstaða hins opinbera hefur notið góðs af þessari þróun. Útgjöld til velferðar- og menntamála hafa verið aukin verulega, skuldir ríkissjóðs greiddar niður og fjárfesting í innviðum aukin,“ sagði Þorsteinn. Vissulega séu ærin verk óunnin en árangur sl. áratugar verði engu að síður að teljast góður.

Betri að koma sér úr vandræðum en að forðast þau

„Margt hefur lagst með okkur og margt verið vel gert á þessum tíma.“ Þá hafi það margoft sýnt sig að sem þjóð séu Íslendingar talsvert betri í að koma sér út úr ógöngum en að forðast að rata í þær.

Sagði Þorsteinn stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar um margt ágætan, enda margt kunnuglegt þar frá fyrri stjórn. Mun áhugaverðara sé þó að sjá það sem ekki sé rætt þar. „Breytingar eru þar til að mynda ekki ofarlega á baugi. Ríkisstjórnin virðist ekki hafa neina sjálfstæða skoðun á óstöðugri mynt eða háu vaxtastigi. Lítið er rætt um mögulegar umbætur í sjávarútvegi eða landbúnaði og ekkert er þar að finna um hvernig efla megi samkeppni eða bæta hag neytenda. Þar víkja hagsmunir almennings fyrir sérhagsmunum.“

Vextir og matvælaverð séu líka áhyggjuefni, sem og langur vinnutími og þá sé íslenska hagkerfið margfaldur methafi í óstöðugleika. Það séu stærstu áskoranir íslensks samfélags. „Þetta er ástæða þess að við þurfum að hafa mun meira fyrir hlutunum en samanburðarþjóðir okkar,“ sagði Þorsteinn.

Gengur þvert gegn öllum varnaðarorðum

Þó að áhyggjum sé lýst í stjórnarsáttmálanum af versnandi samkeppnisstöðu útflutningsatvinnugreina sé fátt þar um lausnir. Samkeppnisstaða fyrirtækja í þekkingariðnaði skipti líka miklu máli, en þar liggi okkar stærstu tækifæri til framtíðar. Þar hafi íslensk fyrirtæki hins vegar átt undir högg að sækja vegna  óstöðugs rekstrarumhverfis.

„Því skiptir samkeppnisstaða þessara fyrirtækja sköpum. Þar spilar stöðugur gjaldmiðill, samkeppnishæft vaxtastig og góð hagstjórn lykilhlutverk,“ sagði Þorsteinn.

Á þessum sviðum hafi ný stjórn hins vegar lítið fram að færa. „Stefna hennar í ríkisfjármálum vinnur beinlínis gegn ábyrgri hagstjórn og grefur þannig undan samkeppnisstöðu okkar. Ríkisstjórnin býður upp á baneitraðan kokteill skattalækkana og útgjaldaaukningar á hápunkti hagsveiflunnar. Slík stefna í ríkisfjármálum gengur þvert gegn öllum varnaðarorðum Seðlabanka og annarra sérfróðra aðila og þvert gegn dýrkeyptum lærdómi síðustu efnahagsuppsveiflu, hér skortir alla framtíðarsýn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert