Ábyrgð stjórnarmeirihlutans mikil

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði ábyrgð stjórnarmeirihlutans í að byggja upp …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði ábyrgð stjórnarmeirihlutans í að byggja upp traust á Alþingi mikinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Stundum þarf að fórna minni hagsmunum fyrir meiri, en niðurstaðan þarf að vera samfélaginu sem heild til heilla,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld. Markmið þeirrar stjórnar sem nú hafi tekið við sé fyrst og fremst að koma til móts við ákall almennings um að hagsæld undanfarinnar ára skili sér í ríkari mæli til samfélagsins, fyrst og fremst til uppbyggingar heilbrigðis- og menntakerfis, en einnig hinna efnislegu innviða.

„Sáttmáli ríkisstjórnarinnar fjallar um leiðir til að ná fram félagslegum, efnahagslegum og pólitískum stöðugleika sem tryggir góð lífskjör til framtíðar fyrir venjulegt fólk. Hann ber vitni ágætri stöðu efnahagsmála, en jafnframt miklum viðfangsefnum sem blasa við í uppbyggingu samfélagsinnviða og þeirri félagslegu sátt sem þjóðin hefur kallað eftir,“ sagði Katrín. Megináherslur ríkisstjórnarinnar séu sterkt samfélag, þróttmikið efnahagslíf, umhverfi og loftslag, nýsköpun og rannsóknir, jöfn tækifæri, lýðræði og gagnsæi og alþjóðamál.

Þessi lykilverkefni verði þó ekki einu viðfangsefni nýrrar stjórnar, því það sé ríkisstjórnar og annarra flokka á þingi að byggja upp traust á stjórnmálum og Alþingi sem enn hafi ekki náð því trausti sem ríkti fyrir hrun. „Sem er alvarleg staða fyrir lýðræðið á Íslandi.“

Mikilvægt að skapa samstöðu um stjórnarskrána

Sagði Katrín ábyrgð stjórnarmeirihlutans mikla í þessu máli. „Ekki aðeins er mikilvægt að breyta umræðunni heldur einnig á að tryggja gagnsæi og traust. Þess vegna munum við leggja áherslu á að læra af reynslu undanfarinna ára og líta til alþjóðlegra viðmiða við endurskoðun siðareglna og reglna um hagsmunaskráningu.“ Gott talsamband stjórnvalda og fjölmiðla sé sömuleiðis lykilþáttur í þessu verkefni.

Ekki sé þá síður mikilvægt að reyna að skapa samstöðu hvernig mikilvæg pólitísk mál til lykta, til að mynda heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

Loftslagsmálin og sú stefna stjórnarinnar að gera betur í loftslagsmálum en Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir og gera Ísland kolefnishlutlaust fyrir 2040 var forsætisráðherra einnig að umtalsefni. Stjórnarsáttmálin kveði á um fjöldamörg verkefni og úrbætur tengdar umhverfis- og loftslagsmálum og m.a. verði strax ráðist í að skipa loftslagsráð sem gegna eigi lykilhlutverki við að smíða vegvísi fyrir samfélagið inn í kolefnishlutlausa framtíð.

Mótun langtímaorkustefnu sé einnig lykilþáttur í loftslagsmálum og miklu skipti við orkunýtingu framtíðar að stjórnvöld hafi sýn á það hvernig eigi að nýta orkuna.

Úrbætur í meðferð kynferðsbrota bráðaverkefni

Katrín gerði #MeToo byltinguna sömuleiðis að umtalsefni og sagði hana rjúfa aldalanga þögn, þó hvergi sé komið á endastöð í þeim efnum. Langtímaverkefnið snúist um að breyta viðteknum skoðunum sem viðhaldið hafi lakari stöðu kvenna um aldir, en bráðaverkefnið verði aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota.

„En jafnrétti snýst um margt fleira,“ sagði Katrín. „Sáttmáli ríkisstjórnarinnar leggur ríka áherslu á jöfn tækifæri – Ísland á að vera land tækifæranna fyrir alla. Það kallar á margvíslegar aðgerðir sem lúta að því að berjast gegn launamun kynjanna, gera betur í málefnum hinsegin fólks, tryggja samfélagslega þátttöku allra og að efnahagur, búseta, aldur eða fötlun hindri fólk ekki að nýta þau tækifæri sem íslenskt samfélag hefur upp á að bjóða.“

Síðast en ekki síst snúi jafnrétti um jöfn tækifæri ólíkra stétta. „Þar verður ekki hjá því komist að endurskoða samfélagskerfið.“ Skattabreytingar sem lagðar séu til í upphafi kjörtímabils miði þannig að því að gera skattkerfið réttlátara óháð uppruna tekna. Eins ætli stjórnin að taka málefni tekjulægstu hópanna föstum tökum, „gera úttekt á stöðu þeirra og vinna að því að bæta hana, ekki síst þeirra barna sem búa við fátækt. Fátækt á einfaldlega ekki að vera til staðar í jafn ríku samfélagi og við eigum hér saman.“

Draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga og stórsókn í menntamálum

Samfélagslegir innviðir séu kjarni sterks samfélags. „Heilbrigðisþjónusta, velferðarþjónusta, löggæsla og húsnæðismál sem veita öryggi og skjól. Menntun, vísindi, menning, skapandi greinar og íþróttir sem auðga andann og byggja okkur upp sem samfélag. Samgöngur, fjarskipti og byggðamál sem styrkja stoðir blómlegra byggða um land allt.  Á öllum þessum sviðum mun ríkisstjórnin kappkosta að skila betra búi en hún tók við,“ sagði forsætisráðherra

Heilbrigðismálin séu þjóðinni sérlega hugleikin og ný stjórn muni leggja áhersla á að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga, bæta geðheilbrigðisþjónustu og forvarnir og byggja upp hjúkrunarrými.

Eins verði ráðist í stórsókn í menntamálum. Þannig muni fjárframlög til háskóla ná meðaltali OECD-ríkjanna árið 2020 og stefnt sé að því að þau nái meðaltali Norðurlanda fyrir árið 2025. Sömuleiðis eigi að efla iðnnám, verk- og starfsnám og styrkja rekstur framhaldsskólanna í takt við loforð þar síðustu ríkisstjórnar.

Þá leggi ný stjórn ekki síður áherslu á að unnið verði hratt að því í samstarfi við heildarsamtök örorkulífeyrisþega að endurskoða þann hluta almannatryggingakerfisins sem líti að því tryggja þeim mannsæmandi kjör og hvetja til samfélagsþátttöku öryrkja. „Frítekjumark vegna atvinnutekna aldraðra verður hækkað strax á næsta ári,“ sagði Katrín  og dregið verði úr kostnaði aldraðra og örorkulífeyrisþega við tannlækningar strax á næsta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert