Skúli gefur kost á sér í 3. sæti

Skúli Helgason gefur kost á sér í þriðja sæti í …
Skúli Helgason gefur kost á sér í þriðja sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Ljósmynd/Aðsend

Skúli Helgason gefur kost á sér í 3. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar sem fram fer 10. febrúar næstkomandi. Skúli hefur verið borgarfulltrúi í eitt kjörtímabil og hefur stýrt skóla- og frístundamálum á þeim tíma.

Í yfirlýsingu Skúla segir að lýðræðismálin séu honum hugleikin, sem og sú sókn sem nú standi yfir í skóla og frístundamálum borgarinnar. „Undanfarið ár höfum við svo unnið að mótun menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030 í samstarfi við þúsundir kennara, skólastjórnendur og annað starfsfólk okkar auk þess sem fjölmargir borgarbúar hafa lagt gott til málanna í gegnum Betri Reykjavík. Þessi vinna er á lokastigi og verður kynnt á vormánuðum. Þá tekur við mikilvægasti hluti vinnunnar, innleiðing stefnunnar, og er ég tilbúinn að leiða þá vandasömu vinnu,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá vilji hann á næsta kjörtímabili beita sér sérstaklega í umhverfismálum með áherslu á loftslagsmál og raunhæfar leiðir til að draga úr losun almennings og fyrirtækja. 

Skúli er menntaður stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands og með MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Minnesota-háskóla. Hann sat á Alþingi kjörtímabilið 2009 til 2013 og var framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar frá 2006 til 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert