Tryggði réttinn á Ísafirði

Pita Taufatofua
Pita Taufatofua Af Instagram - birt með leyfi.

Skíðasvæðið á Ísafirði komst óvænt í heimsfréttirnar um helgina þegar Pita Taufatofua, sem var fánaberi Tonga og keppandi í taekwondo á Ólympíuleikunum í Río de Janeiro í Brasilíu 2016, keppti þar í 10 km göngu á fismóti á Ísafirði og tryggði sér þátttökurétt á Vetrarólympíuleikunum, sem verða í Suður-Kóreu 9.-25. febrúar nk. Hann er fyrsti útlendingurinn sem nær þessum árangri á Íslandi.

Skíðasvæðið á Ísafirði er eitt það besta á landinu og sérstaklega er gönguskíðasvæðið rómað enda mikil rækt lögð við það. Hlynur Kristinsson, forstöðumaður svæðisins, segir að göngusvæðið sé vel samkeppnisfært við mörg slík svæði erlendis og Fossavatnsgangan sé orðin hluti af Worldloppet, stærstu alþjóðlegu mótaröðinni.

Hlynur segir að mikill metnaður sé í heimamönnum til þess að gera hlutina vel. Skíðahefðin sé til staðar og göngumenningin hafi náð svigskíðahefðinni. Mikil ásókn sé í námskeið í skíðagöngu og um 300 manns, flestir að sunnan, sæki námskeið í janúar.

Æfði á hjólaskíðum

Daníel Jakobsson var mótsstjóri á alþjóðlega mótinu um helgina. Hann segir að þegar eins stutt er í vetrarólympíuleika og nú reyni menn gjarnan að ná lágmörkum á mótum sem eru í veikari kantinum. Fimm útlendingar hafi verið skráðir til keppni á Ísafirði en einn hafi ekki byrjað. Keppandi frá Síle hafi þegar verið búinn að tryggja sig inn á leikana í Suður-Kóreu, fulltrúi Trinidad og Tobago hafi ekki náð í farseðilinn, Mexíkói hafi verið á góðri leið en verið dæmdur úr leik og Pita Taufatofua hafi stolið senunni.

Pita Nikolas Taufatofua á Ólympíuleikunum í Rio de Janeiro í …
Pita Nikolas Taufatofua á Ólympíuleikunum í Rio de Janeiro í Brasilíu 2016. AFP

Í erlendum fréttaskeytum kemur fram að Pita Taufatofua, sem er 34 ára, hafi verið úrkula vonar um að komast á leikana eftir að hafa mistekist ætlunarverkið á sjö mótum. Í liðinni viku missti hann af flugi frá Istanbul í Tyrklandi til Króatíu, þar sem hann ætlaði að keppa, og þá var Ísafjörður síðasta vonin. „Ég hugsaði með sjálfum mér að ég yrði að gefa allt í þetta, annaðhvort gröfin eða gleðin,“ var haft eftir honum. Eftir að hafa tryggt sér sætið til Suður-Kóreu, fyrstur skíðamanna frá eyjunni Tonga í Kyrrahafinu, þar sem sólin skín allt árið og snjór er bara til á prenti, réði hann sér ekki fyrir gleði. Hann æfði á hjólaskíðum og sagðist hafa fórnað öllu, stæði illa fjárhagslega þrátt fyrir góðan stuðning (www.gofundme.com/help-tonga-to-the-winter-olympics) en gæti ekki verið ánægðari.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert