Gefur kost á sér til formanns framkvæmdastjórnar

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir.
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir.

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar og fötlunaraðgerðasinni, gefur kost á sér í embætti formanns framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Kosið verður til embættisins á landsfundi Samfylkingarinnar sem fram fer dagana 2.-3. mars. 

Inga Björk er 25 ára gömul, Borgnesingur og sjálfstætt starfandi sýningarstjóri. Inga Björk hefur verið virk innan Samfylkingarinnar um langt skeið; hefur átt sæti í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar frá árinu 2015, er varaformaður og gjaldkeri Ungra jafnaðarmanna, er formaður Samfylkingarfélags Borgarbyggðar og var 1. varaþingmaður Norðvesturkjördæmis 2016–2017.

„Ég vil leggja alla krafta mína til svo flokkurinn geti haldið áfram að stækka og verið burðarflokkur í íslenskum stjórnmálum,“ er haft eftir Ingu Björk í fréttatilkynningu. „Í framkvæmdastjórn hef ég lagt áherslu á femínísk gildi og vil að flokkurinn stundi virkra [sic] sjálfsskoðun þegar kemur að karllægum viðhorfum og starfsháttum.“

Hún segir unga jafnaðarmenn burðarstólpa í starfi Samfylkingarinnar. „Tryggja þarf ungu fólki rödd í starfi flokksins og sæti á listum í sveita[r]stjórnar- og Alþingiskosningum. Lágt fylgi meðal ungs fólks er vandamál sem tækla þarf á markvissan hátt með sterkum málflutningi kjörinna fulltrúa um hagsmuni ungs fólks og virku starfi Ungra jafnaðarmanna.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert