Hjálmar leiðir lista sjálfstæðismanna í Grindavík

Hjálmar Hallgrímsson skipar efsta sæti listans.
Hjálmar Hallgrímsson skipar efsta sæti listans. mbl.is/Sigurður Bogi

Hjálmar Hallgrímsson, sitjandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í Grindavík, mun áfram leiða flokkinn fyrir komandi sveitastjórnarkosningar, en prófkjör fór fram hjá flokknum í gær. Sjö voru í framboði og 208 tóku þátt í kjörinu. 

Fram kemur í tilkynningu að Birgitta Káradóttir viðskiptafræðingur komi ný inn í 2. sæti með 106 atkvæði, Guðmundur Pálsson bæjarfulltrúi var í 3. sæti með 142 atkvæði, Jóna Rut Jónsdóttir bæjarfulltrúi í 4. sæti með 125 atkvæði og Irmý Rós Þorsteinsdóttir viðskiptafræðingur í því 5. með 164 atkvæði. Tvö atkvæði voru ógild.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk þrjá menn kjörna í sveitarstjórnarkosningunum árið 2014 og er í meirihluta með Grindavíkurlistanum.

Fram kemur í tilkynningu að nú taki kjörnefnd við og geri tillögu að framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Grindavík fyrir komandi sveitarstjórnakosningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert