„Ber ekki ábyrgð á Sigríði Andersen“

Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, segir samstarf VG og Sjálfstæðisflokks á …
Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, segir samstarf VG og Sjálfstæðisflokks á landsvísu og í borgarmálum vera tvennt ólíkt. mbl.is

„Ég ber ekki ábyrð á Sigríði Andersen eða Sjálfstæðisflokknum,“ sagði Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG, er atvæðagreiðsla þingmannanna Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur og Andrésar Jónssonar var rædd í þættinum Silfrinu á RÚV í morgun.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, og Pawel Bartoszek frá Viðreisn sögðu hafa fækkað í meirihlutanum og að ansi margt virtist vera komið í hnút hjá stjórnarflokkunum, þó að ekki væri lengra liðið á stjórnarsamstarfið.

Vakti Pawel m.a. máls á því að varaþingmaður hefði verið kallaður inn án samþykkis Rósu. „Þá er oft lítið eftir,“ sagði hann.

Líf sagði Rósu og Andrés hins vegar ekki vera efnislega ósammála flokknum og að þau hefðu samþykkt öll mál stjórnarinnar. „Jafnfá og þau hafa verið,“ bætti Gunnar Bragi við.

„Þetta gekk ekki vandræðalaust fyrir sig 2009 og 2013 og þetta er örugglega erfiðara en menn eru að reyna að láta líta út fyrir,“ sagði hann.

Líf sagðist hins vegar vera hlynnt því að VG leiddi ríkisstjórn, en að það væri tvennt ólíkt að ræða um samstarf VG og Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn og í borgarmálunum. „Við erum í góðu vinstri samstarfi í borginni, en það má þó vel athuga það ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að vera vinstri flokkur í borginni.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert