Nýtt Nes undirbýr framboðslista

stjórnir Neslistans og Viðreisnar samankomnar: Karl Pétur Jónsson, Rán Ólafsdóttir, …
stjórnir Neslistans og Viðreisnar samankomnar: Karl Pétur Jónsson, Rán Ólafsdóttir, Oddur Jónas Jónsson, Árni Einarsson formaður Neslistans, Ragnhildur Ingólfsdóttir og Páll Árni Jónsson formaður Viðreisnar á Seltjarnarnesi.

Neslistinn, sem Bæjarmálafélag Seltjarnarness hefur boðið fram frá árinu 1990 og Viðreisn hafa ákveðið að bjóða fram sameiginlegan lista í bæjarstjórnarkosningunum í vor undir nafninu Nýtt Nes. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Neslistinn var stofnaður árið 1990 og hefur verið með á bilinu einn til þrjá bæjarfulltrúa á hverju kjörtímabili allar götur síðan. Viðreisn býður nú í fyrsta sinn fram á Seltjarnarnesi.

,,Það er okkur mikill styrkur að geta boðið fram með Neslistanun, enda er rík reynsla af störfum að bæjarmálum innan listans,“ er haft eftir Páli Árna Jónssyni, formanni Félags Viðreisnarfólks á Seltjarnarnesi, í fréttatilkynningunni. „Við munum bjóða fram glæsilegan lista af nýju fólki til að leiða Seltjarnarnes inn í nýja tíma. Það er kominn tími til þess að þjónusta við bæjarbúa sé veitt af auknum metnaði og framsýni. Sama fólk hefur verið í meirihluta við stjórn bæjarins í langan tíma og tími kominn á ferska vinda.”

Árni Einarsson, formaður Bæjarmálafélags Seltjarnarness og oddviti Neslistans, segir að á Seltjarnarnesi sé ákall um aukna fagmennsku í stjórnarháttum. „Við fögnum samstarfi um að bjóða fram lista bæjarbúa sem eru tilbúnir að takast á við að gera þjónustu bæjarins við íbúa enn betri, því í góðu samfélagi eru sóknarfærin endalaus.“

Nýtt Nes hefur í vikunni auglýst eftir frambjóðendum og geta áhugasamir bæjarbúar haft samband við Árna Einarsson í síma 861 1582 eða Pál Árna Jónsson í síma 858 6101 eða sent tölvupóst á nyttnes2018@gmail.com.

 Uppstillingarnefnd mun velja fólk á listann, sem kynntur verður í apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert