Samgöngur, umhverfismál og aldraðir

Íbúum fjölgaði um rúm 16% á sjö árum. Þessi þróun …
Íbúum fjölgaði um rúm 16% á sjö árum. Þessi þróun kallar á aukin verkefni sveitarfélaganna á svæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Talsvert önnur staða er uppi í sveitarfélögunum á Suðurnesjunum nú, en þegar íbúar þar kusu síðast til sveitarstjórna fyrir fjórum árum. Síðan þá hefur atvinnutækifærum fjölgað mikið og sömuleiðis hefur fólksfjölgun verið þar fordæmalaus. Þessu fylgja aukin verkefni sveitarfélaganna á svæðinu, en ekki síður fjölmörg tækifæri.

Í viðtölum við nokkra íbúa svæðisins kemur fram að þeir telja að þessari breyttu stöðu mála fylgi mörg gríðarstór og brýn verkefni sem setja þurfi á oddinn í komandi sveitarstjórnarkosningum, þó kosningaáherslurnar séu vissulega nokkuð mismunandi eftir sveitarfélögum.

Íbúum á Suðurnesjum fjölgaði um 16,17% frá 2010-2017 sem er hlutfallslega miklu meira en annars staðar á landinu, t.d. fjölgaði íbúum á höfuðborgarsvæðinu um 8,44% á sama tímabili.

„Fólksfjölgunin og það sem henni fylgir verður án efa stærsta áskorunin sem mun mæta nýjum meirihlutum eftir kosningarnar í sveitarfélögunum á Suðurnesjum,“ segir Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. „Þegar þessi uppsveifla hófst var 14,7% atvinnuleysi á svæðinu, núna er það í kringum landsmeðaltal sem er 2,3%.“

Þessi uppgangur hefur, að hennar sögn, haft gríðarmikil áhrif á fjárhag sveitarfélaganna, sem nú eru með færri á félagslegu framfæri og útsvarstekjur þeirra hafa einnig hækkað töluvert. Ljóst sé að opinberri þjónustu á svæðinu hafi ekki tekist að halda í við fólksfjölgunina og það sama megi segja um framboð á húsnæði.

Heil stóriðja á ári

Berglind segir að byggingar íbúða séu fyrirhugaðar víða á Suðurnesjunum og nefnir þar Voga, þar sem til stendur að byggja 600 nýjar íbúðir sem er 150% aukning frá þeim fjölda íbúða sem eru þar fyrir.

„Hluti þessara nýju Suðurnesjabúa er fólk sem flytur af höfuðborgarsvæðinu vegna hás húsnæðisverðs þar og skorts á húsnæði. Margir selja íbúðirnar sínar á höfuðborgarsvæðinu og fá hér sérbýli fyrir svipaða upphæð,“ segir Berglind.

Berglind Kristinsdóttir.
Berglind Kristinsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Beinum störfum á Keflavíkurflugvelli hefur fjölgað um hátt í 4.500 undanfarin fimm ár, að sögn Berglindar. Þeim fjölgaði um 1.700 á síðasta ári og í ár er búist við að fjölgunin verði um 1.300. Þarna er eingöngu átt við bein störf, en ekki afleidd störf sem Berglind segir erfitt að henda reiður á. „Þessi fjölgun starfa samsvarar því að heil stóriðja bætist við á hverju einasta ári og þessu er spáð allt fram til ársins 2040. Náttúruleg fjölgun fólks, sem kemur út á vinnumarkað á Suðurnesjunum á hverju ári, er 400 manns. Ekki er allt það fólk að fara að vinna í flugstöðinni þannig að við höfum þurft að fá fólk frá öðrum löndum,“ segir Berglind. „Íbúasamsetningin hér er orðin allt önnur en annars staðar á landinu, hér eru um 20% íbúa af erlendu bergi brotin.“

Berglind segir að huga þurfi vel að þjónustu við þennan hóp, ekki síst í skólakerfinu þar sem koma þurfi til móts við þarfir barna sem tali litla sem enga íslensku. „Það er mikilvægt að þetta fólk verði íbúar hér og taki þátt í samfélaginu.“

Ekkert húsnæði að fá

„Samgöngumál, húsnæðismál og heilbrigðismál. Þetta er það sem mér finnst skipta mestu máli í komandi kosningum,“ segir Jóhann Páll Kristbjörnsson hönnuður sem býr og starfar í Reykjanesbæ. „Fjölfarnasti vegur landsins, Reykjanesbraut, liggur í gegnum sveitarfélagið mitt, honum er ekki sinnt og hefur sennilega ekki verið í verra ásigkomulagi síðan hann var malarvegur. Það er bæjarstjórnarinnar að þrýsta á ríkisvaldið að halda honum við og gera hann öruggan. Það sama gildir um Grindavíkurafleggjarann sem er sannkölluð dauðagildra.“

Jóhann Páll Kristjánsson.
Jóhann Páll Kristjánsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhann segir að á þeim áratug sem hann hefur verið búsettur í bænum hafi verið dregið verulega úr heilbrigðisþjónustu, deildum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hafi verið lokað og nú þurfi bæjarbúar að sækja þjónustu í meiri mæli til Reykjavíkur en áður. „Svo er yfirleitt um þriggja vikna bið eftir tíma hjá heimilislækni. Það er allt of langur tími og ekki fólki bjóðandi. Á sama tíma hefur íbúum á svæðinu fjölgað og gert er ráð fyrir að sú fjölgun haldi áfram. Það sjá það allir að þjónustan hefur engan veginn aukist í takt við það,“ segir Jóhann.

Hann segist þekkja dæmi um fólk sem hafi hug á að setjast að á Suðurnesjunum en ekki fengið húsnæði. „Það er gríðarlega erfitt að fá húsnæði hérna, hvort sem það er leiguhúsnæði eða til kaups. Þarna gætu leigufélög, sem hugsanlega gætu verið á vegum sveitarfélaganna á einhvern hátt, komið að málum.“

Umhverfismálin mikilvæg

Umhverfis-, menningar- og skólamál eru stærstu kosningamálin á svæðinu, að mati Önnu Sigríðar Sigurjónsdóttur, myndhöggvara og bæjarlistamanns Grindavíkur. „Nútímastjórnmál snúast um að hugsa út fyrir eigið svæði, á heimsmælikvarða, og það á líka við um sveitarstjórnarpólitíkina. Margir hér á svæðinu brenna fyrir umhverfismálum, þeir vilja vernda svæðið og þykir vænt um þessa ósnortnu náttúruperlu. Þetta er algerlega stórkostlegt svæði, við erum t.d. með eldvörpin, gígaröð sem er líklega einstök í heiminum,“ segir Anna.

Anna Sigríður Sigurjónsdóttir.
Anna Sigríður Sigurjónsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún segir brýnt að bæjarstjórnir á svæðinu komi að því að ákveða hvernig haga eigi aðgengi að ferðamannastöðum á svæðinu. „Ég held að það sé skynsamlegra að vernda með því að auka aðgengi með vöktun og með því að gera fallega göngustíga og fallega staði þar sem fólk getur látið fara vel um sig.“

Anna segist vonast til þess að áhersla verði á menningarmál í kosningabaráttunni sem nú fer í hönd. „Það er mannréttindamál að sem flestir hafi aðgengi að menningu í sínu nærumhverfi, ekki síst börn. Það að fara t.d. á sýningar í sínu bæjarfélagi sé hluti af daglegu lífi. Þannig verður mannlífið svo miklu ríkara og við megum ekki gleyma því að skapandi hugsun og list er að finna með einhverjum hætti alls staðar í samfélaginu.“

Steinar Smári Guðbergsson, meindýraeyðir sem búsettur er í Vogum, segir að uppgangurinn á svæðinu undanfarin ár hafi gjörbreytt áherslum sveitarstjórna í sveitarfélögunum á Suðurnesjum. Sveitarfélögin á svæðinu hafi getað greitt niður hluta skulda sinna, fyrirtækjum hafi fjölgað í Vogum, atvinnumöguleikar séu fjölbreyttari en áður og talsverðar framkvæmdir standi fyrir dyrum í bænum. Eitt af því sem Steinari er hugleikið er hafnarsvæðið í Vogum sem hann segir ekki samboðið þessu sjávarþorpi. „Það þyrfti að taka það í gegn. Bryggjan er að grotna niður,“ segir hann. „Það kæmi mér ekki á óvart að það yrði eitt af helstu kosningamálunum hér í bænum. Svæðið hefur verið látið drabbast niður í líklega 20 ár eða svo.“

Huga þarf betur að öldruðum

Annað, sem Steinar myndi gjarnan vilja sjá sem áherslumál í kosningunum, eru málefni aldraðra. „Hér er ekkert hjúkrunarheimili og þegar fólk verður ósjálfbjarga er það flutt hreppaflutningum í annað sveitarfélag. Þetta fólk á annað og betra skilið,“ segir Steinar. „Við stöndum okkur mjög vel í leikskóla- og skólamálunum fyrir börnin, við leggjum áherslu á atvinnumálin fyrir fólkið á vinnumarkaði, en þegar kemur að því að verða gamall, þá er eins og þú sért fyrir og best að koma þér eitthvað annað í staðinn fyrir að geta átt ánægjulegt ævikvöld í eigin umhverfi. En þetta er ekkert einsdæmi hér í Vogum, því miður er staðan svona víða um landið.“

Steinar Smári.
Steinar Smári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Annað málefni sem Steinari finnst að leggja mætti áherslu á í komandi kosningum er heilbrigðisþjónusta á svæðinu. „Núna kemur hingað læknir einu sinni í viku, við vorum með heilsugæslustöð, en henni var lokað fyrir nokkrum árum. Núna er íbúum að fjölga og það verður áhugavert að sjá hvort hún verður opnuð aftur,“ segir Steinar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert