Húsnæði, heilbrigðismál og samgöngur

Hjá gróðrastöðinni Jöfra á Flúðum var starfsfólk í óðaönn að …
Hjá gróðrastöðinni Jöfra á Flúðum var starfsfólk í óðaönn að pakka gulrótum á dögunum. mbl.is/Hari

Húsnæðisskortur, samgöngumál, bygging hjúkrunarheimila, heilbrigðisþjónusta og sambúðin við ferðamenn eru þau mál sem brenna hvað helst á Sunnlendingum þegar nær dregur kosningum til sveitarstjórna. Þetta má ráða af viðtölum Morgunblaðins við nokkra íbúa á svæðinu að undanförnu.

„Við erum að sjá ótrúlega eftirspurn eftir húsnæði hérna í uppsveitunum. Þú verður bara að beita einhverjum bellibrögðum til að leysa húsnæðismál fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu og landbúnaði. Það er ekkert til sölu á Selfossi nema á uppsprengdu verði og svo pressast þetta út í jaðarbyggðirnar. Ég held að ríkisvaldið þurfi að beita sértækum aðgerðum á þessum svæðum þar sem hefur orðið markaðsbrestur. Ef við ætlum að halda landinu í byggð þá verðum við að sætta okkur við að það kostar,“ segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi.

Gunnar segir að fyrir utan húsnæðismál séu stóru sameiginlegu málin á Suðurlandi um þessar mundir þrjú.

„Samgöngumálin eru númer eitt. Hjúkrunarheimili númer tvö og heilbrigðisþjónustan, sjúkrastofnanir, nærþjónusta við íbúa og sjúkraflutningar númer þrjú,“ segir hann.

Augljóst er að brýn þörf er fyrir ný hjúkrunarheimili eftir að Kumbaravogi og Blesastöðum var lokað. Um þessar mundir bíða 36 eftir hjúkrunarrými á Suðurlandi og 86 bíða eftir hvíldarinnlögn. „Þessi 60 rými sem á að byggja hverfa bara á einum degi,“ segir Gunnar um stöðu mála.

Gunnar Þorgeirsson, formaður SASS.
Gunnar Þorgeirsson, formaður SASS. mbl.is/Hari

Brothætt heilbrigðisþjónusta

Tíðar fréttir hafa verið fluttar af stöðu heilbrigðismála á Suðurlandi í tengslum við fjölda umferðarslysa þar. Mikil mildi þykir að oft hafi ekki farið verr en ella sökum langra vegalengda milli stofnana.

„Við höfum sagt að Heilbrigðisstofnun Suðurlands standi sig frábærlega með þeim fjármunum sem hún hefur en samfélögin undir HSU eru gríðarlega brothætt. Nærtækt dæmi er heilsugæslustöðin á Klaustri sem fékk þetta rútuslys í fangið. Auðvitað leystu þau verkefnið en það hefði getað farið verr. Bílstjórinn á sjúkrabílnum er líka slökkviliðsmaðurinn og aðstoðarmaðurinn er líka hjúkrunarfræðingurinn. Hvað hefði gerst ef þessi tvö hefðu verið á Tenerife? Hvernig ætla menn að bregðast við í svona brothættu umhverfi?

Í Reykjavík er verið að byggja nýjar slökkvistöðvar af því útkallstíminn má ekki vera lengri en 14 mínútur á sjúkrabílnum. Svo kemur þetta sama fólk hingað og þá er ekki talað um neinar 14 mínútur, þá geta þetta verið 40-50 mínútur. Ef menn eru að búa til einhverjar leikreglur þá hljóta þær að gilda um allt landið. Annars þarf að segja að á ákveðnum svæðum landsins er B-þjónusta og þá vita menn það þegar þeir flytja þangað.“

Ferðamenn reyna á þolmörk heimamanna

Flaumur ferðamanna um Suðurland hefur skapað álag á stofnanir og innviði á svæðinu. „Umræðan er alltaf eins og ferðaþjónustan sé að hrynja af því fjölgunin sé ekki nema 7% milli ára. Sú fjölgun skilar 170-180 þúsund fleiri túristum heldur en komu í fyrra og hvernig leið okkur þá? Við vorum alveg að kafna,“ segir Gunnar.

Undir þetta tekur Georg Ottósson, eigandi Flúðasveppa. Hann segir næg verkefni nú þegar og erfitt væri ef hraðar fjölgaði.

„Þessi fjölgun ferðamanna er að bjarga landsbyggðinni alveg heilmikið, sama hvað menn segja. Við kvörtum kannski undan því að vegirnir séu orðnir smá ónýtir en þetta eru engar smá tekjur. Þetta er orðinn stærsti atvinnuvegur landsins, stærri en sjávarútvegurinn og margfalt stærri en landbúnaðurinn. Við þurfum því að sinna þessu vel og fjárfesta,“ segir Georg.

Gunnar segir að núverandi fjöldi sé farinn að reyna á þolmörk íbúa gagnvart ferðaþjónustunni. „Ég held að íbúar hér séu að verða pirraðir yfir því að hafa ekki aðgang að því sem þeir höfðu áður. Við sjáum það hér að ef við þurfum að skreppa í verslun á Selfossi á föstudegi þá þurfum við kannski að bíða í klukkutíma eftir að komast af Biskupstungnabrautinni inn á Suðurlandsveg. Röðin nær langleiðina upp að Tannastöðum og það er apríl – þetta er ekki einu sinni byrjað!“

Georg Ottósonn, eigandi Flúðasvepps.
Georg Ottósonn, eigandi Flúðasvepps. mbl.is/Hari

Kenna Pólverjum pólsku

Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari FSU, segir að gríðarleg fólksfjölgun í Árborg reyni á innviðina í sveitarfélaginu.

„Fjölgunin var 6% í fyrra og það sér ekki fyrir endann á henni. Það er höfuðverkur að byggja grunnskóla og leikskóla nógu hratt þegar staðan er þessi. Báðir skólarnir í Árborg eru komnir að þolmörkum í stærð. Það má segja að þetta sé ánægjuleg þróun í sjálfu sér en það eru fæðingarhríðir sem fylgja,“ segir Olga. Sjálf hefur hún þurft að glíma við fækkun nemenda en það verður tímabundið ástand.

„Það hefur fækkað hjá okkur eins og í öðrum framhaldsskólum vegna styttingar náms. Á sama tíma voru árgangarnir líka minni. En upp úr 2020 má búast við heldur stærri árgöngum.“

Tíminn fram að því nýtist til að laga námið að breyttri samsetningu nemenda. „Nú fáum við líka fleiri nýbúa sem eru að flytja hingað í tengslum við þessa miklu sprengju í ferðaþjónustu. Við þurfum að geta boðið þessum hópi nám við hæfi og þess vegna ætlum við að bjóða upp á kennslu í pólsku fyrir Pólverja á næsta hausti. Við vitum að við erum að fá mikið af pólskumælandi krökkum í skólann í haust og hingað til höfum við sett þessa krakka í íslensku fyrir útlendinga. En það er ekki það sama og móðurmálskennsla,“ segir Olga Lísa og tekur fram að að um tilraunaverkefni sé að ræða. Hún veit ekki til þess að boðið hafi verið upp á samskonar kennslu í framhaldsskólum.

„Við rennum blint í sjóinn en vitum að við eigum von á mörgum krökkum. Þau eru mörg búin að dvelja stutt hér landi og vantar móðurmálskennslu. Við erum bara að pæla í þörfinni – við viljum gera nemendur betur hæfa til þess að aðlagast samfélaginu hér.“

Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari FSu.
Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari FSu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verknám á uppleið

Aukin áhersla hefur verið lögð á verknám í FSu í vetur í kjölfar þess að nýtt verknámshús var tekið í notkun. Segir Olga Lísa að kennslubúnaður hafi tekið stakkaskiptum og nú sé hægt að ljúka námi í greinum sem áður var ekki hægt. Þá hafi kennsla í háriðn bæst við í haust og í kjölfarið hafi stelpum á verknámsbraut fjölgað.

„Það fjölgaði í öllum greinum í haust og vonandi heldur það áfram næsta vetur. Við höfum verið að kynna verknámið fyrir elstu nemendum í grunnskólunum í vetur og erum bjartsýn á að það muni skila fleirum. Það er mikilvægt því síðustu ár hefur verið dregið úr verknámi í grunnskólum. Margir fá ekki að snerta á þeim þáttum sem skipta máli til að þú vitir hvað þér finnst gaman. Þessir krakkar hafa kannski aldrei prófað að halda á hamri eða skrúfa skrúfu. Það er slæmt ef þau fá ekki að komast í tæri við hluti sem gætu opnað augu þeirra.“

Sameiningar í kortunum

Gunnar spáir breytingum á næsta kjörtímabili. „Ég sé alveg fyrir mér að á næsta kjörtímabili verði umræða um sameiningu sveitarfélaga miklu þyngri. Eftir þessa þrengingu lagarammans um persónuvernd bætist við mikil vinna hjá sveitarfélögum og það verður þessum litlu samfélögum nánast ofviða nema að bæta við starfsfólki. Núna eru kannski 2-3 ársverk á hverri skrifstofu og að eiga að bæta við heilum starfsmanni bara út af persónuverndarlögum skapar gríðarlegan vanda.

Við höfum rætt um hvort við eigum að sameinast um persónuverndarfulltrúa á svæðinu og að vinna að þessum hlutum saman. Þetta mun nefnilega kosta mikið af peningum og mannafla og stofnanir eru misvel í sveit settar með að ráða við verkefnin. Þetta er svaka mál fyrir svona lítil samfélög.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert