„Ef Ísafjörður lifir illa, þá lifum við líka illa“

Kristján Jón Guðmundsson starfar hjá Kampa í Bolungarvík og stundar …
Kristján Jón Guðmundsson starfar hjá Kampa í Bolungarvík og stundar strandveiðar á sumrin. mbl.is/Eggert

„Ef það kæmi þetta laxeldi, þá yrðum við orðnir nokkuð sáttir í bili,“ segir Kristján Jón Guðmundsson í Bolungarvík. Hann var nýbúinn að hífa bát sem hann á ásamt öðrum á flot og var að skoða ástand hans er blaðamann og ljósmyndara Morgunblaðsins og mbl.is bar að garði síðastliðinn föstudag. Von var á eftirlitsmönnum til að skoða bol strandveiðisbátsins eftir vetrarlegu í höfninni.

„Við nennum alveg að vinna ef við fáum vinnu og við getum alveg bjargað okkur ef við fáum leyfi til þess. Þetta felst í því að það séu einhver tækifæri fyrir menn hérna, því að við erum ýmislegt að hugsa. Þetta er það brýnasta sem er í deiglunni. Það var fundur hér um daginn uppi í félagsheimilinu og þar var sneisafullt hús af íbúum og öllum sem vilja fylgjast með þessu,“ segir Kristján Jón um laxeldisáformin.

Bryggjan þar sem Kristján og félagar voru að athafna sig í Bolungarvík er hálf-uppgerð og það segir Kristján lýsandi fyrir það á hvaða hraða framkvæmdir í minni sveitarfélögum fari fram.

„Þetta átti að fara alveg hérna fram, það voru ekki veittir peningar í það,“ segir Kristján og bendir á bryggjusporðinn, sem er lægri og auðsjáanlega eldri en sá hluti bryggjunnar sem við stöndum á. En nýrri hlutinn var gerður upp fyrir þremur árum, að sögn Kristjáns.

„Í sumar verður farið í að kaupa stálið hérna fram og næsta sumarið á eftir verður farið í að negla það niður og þriðja sumarið í að klára. Þannig að við lifum lífi skjaldbökunnar hérna úti á landi. Það gerist bara ekkert „prontó.““

Fuglalíf í Bolungarvík á fallegum vordegi.
Fuglalíf í Bolungarvík á fallegum vordegi. mbl.is/Eggert

Hann sjálfur lætur bæjarmálin sig varða og er á framboðslista Sjálfstæðismanna og óháðra í Bolungarvíkurkaupstað fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Kristján segir Óshlíðargöngin sem tekin voru í notkun árið 2010 hafa aukið samvinnu Bolvíkinga og Ísfirðinga og sér fyrir sér að samstarf sveitarfélaganna muni halda áfram að aukast.

„Við höfum verið eins og aðrir, lifað í hrepparíg og svona, en núna er það bara búið. Það er frístundarúta á milli Bolungarvíkur og Ísafjarða, sem er gífurleg breyting fyrir fólk sem er með börn í íþróttum. Það þarf ekkert að hafa áhyggjur af þessu, þetta er ekkert vesen.“

„Þó að maður verði alltaf Bolvíkingur, þá vil ég að Ísafjörður lifi vel, því að ef að Ísafjörður lifir illa, þá lifum við líka illa. Alveg sama á við um Ísafjörð, það kemur niður á þeim ef það dregst allt saman í Bolungarvík. Ef að menn fara að vinna saman, þá er það bara „win-win“,“ segir Kristján Jón.

Nánar er rætt við íbúa á Vestfjörðum um helstu málefnin sem á þeim brenna fyrir sveitarstjórnarkosningar í Morgunblaðinu í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert