Vilja að fulltrúar séu sýnilegir í umræðunni

Hákon Ernir og Kristín Helga eru í stjórn nemendafélags Menntaskólans …
Hákon Ernir og Kristín Helga eru í stjórn nemendafélags Menntaskólans á Ísafirði. mbl.is/Eggert

Bolvíkingurinn Kristín Helga Hagbarðsdóttir og Ísfirðingurinn Hákon Ernir Hrafnsson eru í forsvari fyrir nemendafélag Menntaskólans á Ísafirði, gjaldkeri og formaður. Þau eru sammála um að fyrirhugað laxeldi í Ísafjarðardjúpi sé mikilvægasta hagsmunamál sveitarfélaga sinna og vilja kjósa sér fulltrúa sem beita sér fyrir því og fleiri málefnum fjórðungsins í opinberri umræðu.

„Það er langmikilvægasta málið,“ segir Hákon Ernir. „Það skapast svo mikil atvinna í kring um þetta,“ segir hann og bætir við að lengi hafi það verið hugsunin á Ísafirði að ekki þyrfti að stækka skólana né bæta helstu innviði samfélagsins, þar sem búist hafi verið við því að fólki væri að fara að fækka. Fiskeldið sé forsenda þess að hægt að horfa til framtíðar með það í huga að bærinn sé að fara að stækka umtalsvert.

Kristín Helga nefnir að sálfræðiþjónustu sé verulega ábótavant á svæðinu og Hákon samsinnir því. „Nú er enginn sálfræðingur hér, ég á vinkonu sem þarf á sálfræðiþjónustu að halda og hún þarf að borga 16 þúsund fyrir hvern tíma og þá þarf sálfræðingur að koma að sunnan,“ segir Kristín.

Um 170 nemendur stunda nám við Menntaskólann á Ísafirði og koma þeir flestir frá Ísafirði og byggðunum í næsta nágrenni við skólann. Kristín og Hákon segja að vegna bágra samgagna við sunnanverða Vestfirði yfir vetrarmánuðina kjósa fáir 10. bekkingar úr Vesturbyggð og Tálknafjarðarbæ að fara til Ísafjarðar til náms.

„Fara ekki flestir þaðan suður?“ spyr Kristín og Hákon segist telja að flestir fari suður eða á Akureyri í framhaldsskóla. „Það er styttra fyrir þau að fara heim til sín frá Reykjavík en frá Ísafirði á veturna,“ segir Hákon um samgöngurnar á milli þessara tveggja meginatvinnusvæða á Vestfjarðakjálkanum.

„Þetta eru samt kannski ekki vandamál sem snerta endilega sveitarstjórnarkosningarnar, en þetta er eitthvað sem bærinn þarf að berjast fyrir og þeir sem eru að leiða bæinn þurfa að vera sýnilegir í umræðunni. Það hefur vantað hjá bæjarstjóranum á Ísafirði, en bæjarstjórarnir í Bolungarvík og Súðavík eru mjög sýnilegir í umræðunni í kringum samgöngur og fiskeldi og allt þetta sem skiptir máli,“ segir Hákon.

Unga fólkið og sveitarstjórnarmálin

Aðspurð að því hvort hún telji ungt fólk láta að sér kveða í sveitarstjórnarmálum á Vestfjörðum segir Kristín að hún viti það ekki. „Erum við að reyna?“ spyr hún Hákon, sem er fljótur til svars.

„Þetta er þannig að krakkar eru yfirleitt að flytja héðan þegar þau eru 18-20 ára og síðan þegar þau koma til baka eru þau ekki ungt fólk lengur,“ segir Hákon. Þannig vanti hreinlega unga fólkið á svæðið til þess að rödd þeirra heyrist í stjórnmálunum. Bæði telja þau þó að fólk á þeirra aldri láti sig sveitarstjórnarmálin varða, þar sem að þau snerti líf ungs fólks með beinum hætti, þá sér í lagi íþrótta- og tómstundamál.

Kristín sjálf hefur staðið í nokkru stappi vegna söngnáms sem hún hefur stundað í Bolungarvík frá því að hún var 13 eða 14 ára. Hún segist vera „komin á toppinn“ í Bolungarvík og að hún vilji fara lengra með söngnámið, en þá þurfi hún að leita til Ísafjarðar, þar sem frekara söngnám sé ekki í boði í Bolungarvík.

„En þá þarf ég að borga allt sjálf og bærinn borgar ekkert á móti mér. Það mun kosta mig svona hálfa milljón á önn að gera það, sem er ekki hægt. Það þarf að laga þetta að mínu mati. Ef þú vilt fara lengra og þú hefur tækifæri til þess með því bara að fara til Ísafjarðar, þá finnst mér að það ætti að mega,“ segir Kristín Helga.

Nánar er fjallað um þau málefni sem brenna á íbúum Vestfjarða fyrir sveitarstjórnarkosningar í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert