Mikið byggt en margir vilja byggja meira

Við Gróttu er eitt vinsælasta útvistarsvæði höfuðborgarbúa og ferðamenn sækja …
Við Gróttu er eitt vinsælasta útvistarsvæði höfuðborgarbúa og ferðamenn sækja þangað í auknum mæli. bæjarbúa geta valið úr fjórum framboðum í sveitarstjórnarkosningunum á laugardaginn næsta. mbl.is/Hari

Kjósendum á Seltjarnarnesi standa fjórir valkostir til boða þegar þeir ganga að kjörborðinu á laugardag, Sjálfstæðisflokkurinn, Fyrir Seltjarnarnes, Viðreisn/Neslisti og Samfylkingin.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið með hreinan meirihluta í bæjarstjórn frá því Seltjarnarnes fékk kaupstaðarréttindi árið 1974. Nú ber svo við að nýtt framboð, Fyrir Seltjarnarnes, er mikið til skipað fólki sem fylgt hefur flokknum að málum auk þess sem varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins er oddviti Viðreisnar/Neslista.

Tap á rekstri í fyrra

Seltjarnarnes hefur þótt með best reknu bæjarfélögum landsins en tilurð nýja framboðsins er engu að síður óánægja með fjármálastjórn bæjarins. Skuldahlutfall bæjarins er 59% sem er hið lægsta meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Rekstrarniðurstaða síðasta árs var hins vegar neikvæð um 99 milljónir króna.

Nýtt hjúkrunarheimili verður tekið í notkun við Safnatröð í ár.
Nýtt hjúkrunarheimili verður tekið í notkun við Safnatröð í ár. mbl.is/Hari

Ánægja með þjónustu

Flestir Seltirnirningar sem rætt var við telja að bjartir tímar séu fram undan og í árlegri könnun Gallup kemur fram mikil ánægja með þjónustu sveitarfélagsins. Útsvar er hið lægsta á landinu, leikskólagjöld með þeim lægstu en tómstundastyrkir með þeim hæstu. Bent er á að verið sé að byggja hjúkrunarheimili í bænum og vilji sé til að byggja nýjan leikskóla. Unnið er að stækkun og betrumbótum á íþróttahúsinu en íþróttaaðstaða þykir að öðru leyti ágæt.

Þónokkuð hefur verið byggt á undanförnum misserum og fjölgaði íbúum um 4,4% á kjörtímabilinu en slíkt heyrir til tíðinda í bæ þar sem byggingarland er af skornum skammti. Farið er að huga að uppbyggingu á iðnaðarhverfinu í Bygggörðum en þar gætu enn fleiri íbúar rúmast í framtíðinni. Einn viðmælenda nefndi að þar væri hægt að byggja íbúðir fyrir fimm hundruð manns en þá færu íbúar bæjarins yfir fimm þúsund.

Að Bygggörðum gæti risið 500 manna byggð í stað iðnaðarsvæðis.
Að Bygggörðum gæti risið 500 manna byggð í stað iðnaðarsvæðis. mbl.is/Hari

Skiptar skoðanir um þéttingu

Yngri kjósendur vilja þó margir sjá enn frekar hugað að uppbyggingu, ekki síst á svæðunum við Austurströnd og í kringum Eiðistorg, miðbæjarsvæði bæjarins. Þessi áhugi er ekki síst vegna þess að skortur hefur verið á minni íbúðum og þær íbúðir sem byggðar hafa verið hafa þótt í dýrari kantinum.

Á þessu kjörtímabili voru kynntar tillögur um framtíðarskipulag miðbæjarsvæðisins en þær mættu andstöðu margra íbúa. Óhætt er að segja að mjög skiptar skoðanir eru um frekari þéttingu byggðar meðal kjósenda, í það minnsta ef marka má umræður í facebookhópi íbúa bæjarins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert