Tækifæri fyrir nýsköpun á Eiðistorgi

Margir íbúar á Nesinu vilja breyta og bæta ásýnd Eiðistorgs.
Margir íbúar á Nesinu vilja breyta og bæta ásýnd Eiðistorgs. mbl.is/Hari

„Mikið af þessu tengist því að ég er alinn upp á Seltjarnarnesi og hef enn sterk tengsl við bæinn. Þetta er mitt bæjarfélag,“ segir Jón von Tetzchner, fjárfestir og frumkvöðull, sem talsvert hefur fjárfest á Seltjarnarnesi undanfarin ár. Jón hefur keypt húsnæði á Eiðistorgi og komið þar fyrir starfsemi á sínum vegum. Þá hefur hann stutt við bakið á íþróttafélaginu Gróttu. Knattspyrnuvöllur bæjarins heitir eftir netvafra Jóns og kallast Vivaldi-völlurinn.

Jón segir í samtali við Morgunblaðið að það hafi vissulega verið gott tækifæri til kaups þegar hann fékk augastað á Eiðistorgi. „Það var þarna tómt húsnæði og ég hugsaði að það væri betra að nýta það eitthvað. Umhverfið á Nesinu er frábært fyrir nýsköpun. Þetta er alveg niður við sjóinn og þarna er mjög fallegt,“ segir hann.

Jón von Tetzchner, fjárfestir og frumkvöðull, hefur talsvert fjárfest á …
Jón von Tetzchner, fjárfestir og frumkvöðull, hefur talsvert fjárfest á Seltjarnarnesi undanfarin ár.

Á Eiðistorgi er húsnæði Jóns rekið undir merkjum Innovation House og þar gefst sprotafyrirtækjum tækifæri til að taka flugið. Þá keypti Jón húsnæði þar sem Íslandsbanki var áður en hýsir nú sjónvarpsstöðina Hringbraut. Að auki er hann einn eigenda kaffihússins og ísbúðarinnar Örnu sem þykir hafa lífgað hressilega upp á bæjarbraginn á Nesinu.

Jón kveðst hafa mikla trú á Eiðistorgi. „Það er góð aðstaða þarna í kring. Það er hægt að labba og hjóla og það er stutt í íþróttamiðstöðina. Á torginu er svo Hagkaup, flottur pöbb í kjallaranum og allt sem þarf. Við höfum reynt að fá skemmtileg fyrirtæki þarna inn svo það væri meira í gangi en var. Svo bættum við kaffihúsinu við. Það styrkir þetta frumkvöðlaumhverfi.“

Hvað finnst þér um hugmyndir um að hressa þurfi upp á torgið, hækka þakið eða breyta að öðru leyti?

„Augljóslega mætti hressa upp á torgið. Við erum opnir fyrir umræðum um það.“

Hvernig líst þér á gamla bæinn þinn að öðru leyti?

„Mér sýnist að þetta sé enn frábær staður fyrir fólk til að búa á. Hann býður upp á mikið, í það minnsta meira en þegar bjó þarna. Þá spiluðum við til dæmis bara á malarvellinum! Ég er ánægður með að Holtið sé enn þá útisvæði og fólk getur líka farið út í Gróttu. Það er mikið af góðri aðstöðu á Nesinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert