Kjörsókn í borginni meiri en fyrir 4 árum

Misjafnt er eftir sveitarfélögum hvort kjörsókn er meiri eða minni …
Misjafnt er eftir sveitarfélögum hvort kjörsókn er meiri eða minni en fyrir fjórum árum. Í Reykjavík mælist hún ögn meiri en mun minni á Akureyri en í síðustu sveitarstjórnarkosningum. mbl.is

Kjörsókn hefur aukist jafnt og þétt eftir því sem líður á daginn. Í Reykjavík er kjörsóknin heldur meiri en á sama tíma fyrir fjórum árum. Klukkan 17 höfðu 33.020 greitt atkvæði í borginni, eða 1.547 fleiri en fyrir fjórum árum. Kjörsókn mælist 36,64% og eru 90.111 á kjörskrá.

Í Kópavogi er kjörsóknin aftur á móti lakari en á sama tíma fyrir fjórum árum. Klukkan 17 höfðu 9.421 kjósendur greitt atkvæði á kjörstað. Kjörsókn er 36,5%, samanborið við 42,4% fyrir fjórum árum. Kjörsókn er einnig heldur dræm í Hafnarfirði þar sem 6.917 hafa greitt atkvæði og mælist kjörsókn 33,3%. 20.786 eru á kjör­skrá.

Kjörsókn í Mosfellsbæ hefur tekið mikinn kipp frá því í hádeginu þegar hún mældist 11,3% Klukkan 17 höfðu 2.904 greitt atkvæði og mælist kjörsóknin 38%. 7.467 eru á kjörskrá.

Kjörsókn í Reykjanesbæ hefur einnig færst í aukana og klukkan 17 höfðu 3.590 greitt atkvæði og mælist kjörsóknin 31,58%, en í hádeginu mældist hún 5,64%.

Mun minni kjörsókn á Akureyri en á sama tíma fyrir fjórum árum

Á Akureyri mælist kjörsókn heldur dræm miðað við síðustu sveitarstjórnarkosningar. Klukkan 17 höfðu 5.433 greitt atkvæði og mælist kjörsókn 39,65%. Kjörsókn er almennt góð í bænum og á sama tíma í fyrra mældist hún 48%. Kjörstjórnarmaður segir í samtali við mbl.is að kjörsóknin virðist vera í takt við áhugaleysi sem sveitarstjórnarkosningunum í bæjarfélaginu hefur verið sýnt í ár.

Kjörsókn á Selfossi klukkan 18:00 var 48,79% sem er nokkurn veginn sú sama og fyrir fjórum árum þegar hún var 49,8%. Þá var lokakjörsóknin 72%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert