Dagur útilokar samstarf við Eyþór

Dagur B. Eggertsson segir að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki …
Dagur B. Eggertsson segir að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki sömu framtíðarsýn fyrir Reykjavík og því geti hann ekki starfað með Eyþóri Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokks í borginni. mbl.is/Arnþór

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, segir að ekki komi til greina að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur starfi saman í borgarstjórn. Frá þessu greindi hann í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn er stærstur í borginni og fékk átta menn kjörna inn í borg­ar­stjórn. Samfylkingin kemur þar á eftir með sjö borg­ar­full­trúa. 

Kristján Kristjánsson þáttastjórnandi spurði Dag hvort hann og Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, væru útilokaðir samstarfsmenn. „Já, í mínum huga,“ svaraði Dagur.

„Mér finnst það hafa svolítið kristallast að við deilum framtíðarsýn fyrir Reykjavík með mjög mörgum flokkum sem voru að bjóða fram í borgarstjórn en Sjálfstæðisflokkurinn er ekki einn af þeim. Á meðan það er þannig þá eru einfaldlega ekki fletir,“ sagði Dagur jafnframt.

Eyþór sagði að málefnin væru það sem skiptu máli og að niðurstaða kjósenda í borginni væri afdráttarlaus, það er ákall um breytingar. „Ákallið er skýrt. Það á að mynda breytingastjórn sem tekur á vandanum, það er húsnæðisvandi, umferðarvandi og kerfisvandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert