Draumurinn rættist í þessum tölum

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ásamt Eyþóri Arnalds, oddvita flokksins í …
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ásamt Eyþóri Arnalds, oddvita flokksins í Reykjavík, á kosningavöku sjálfstæðismanna á Grand Hótel. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er draumur sem við áttum. Að fá a.m.k. níu borgarfulltrúa. Og hann rættist!“ Þetta eru fyrstu viðbrögð Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík við nýjustu tölum úr borginni sem sýna að Sjálfstæðisflokkurinn er með 10.636 atkvæði og níu borgarfulltrúa.

Samfylkingin er nú með 8.702 atkvæði sem þýðir sjö borgarfulltrúar.

Nýju framboðin ákall á breytingar

Talsverðar sveiflur hafa verið á fylgi flokkanna tveggja eftir að fyrstu tölur bárust á tólfta tímanum. Eyþór segir að ýmsar skýringar geti verið á því, m.a. mismikið fylgi flokkanna eftir hverfum. „En aðalatriðið er að við erum stærsti flokkurinn og það hefur ekki gerst í tólf ár. Svo eru önnur skilaboð, ekki síður mikilvæg og þau eru að fólkið í borginni vill augljóslega breytingar. Öll nýju framboðin eru ekkert annað en ákall á breytingar. Breytingar með okkur.“

Bjartsýnn á að vel gangi að mynda meirihluta

Eyþór segist bjartsýnn á að vel gangi að finna sameiginlegan samstarfsflöt með öðrum flokkum og að vel muni ganga að mynda nýjan meirihluta. Spurður um hvaða flokkar eða framboð komi helst til greina segir hann Sjálfstæðisflokkinn geta unnið með öllum þeim sem vilji breytingar. „Það er bjartur tónn í nýju framboðunum. Þau eru vissulega með ólíkar áherslur en eiga það sameiginlegt að benda á það sem þarf að laga og gera betur. Þannig hafa þau fengið stuðning sinn frá fólkinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert