Eðlileg staða í ljósi úrslitanna

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir það hið eðlilega í stöðunni að Fyrir Heimaey og Eyjalistinn ræði saman í dag. Það sé það sem búast hafi mátt við eftir úrslit kosninganna, sem sjálfstæðismenn túlki sem skýr skilaboð um að vilji kjósenda sé að breyta til í bænum.

„Það eru engin illindi í okkur, við höfum bara sagt það að það eru skýr skilaboð fólgin í þessum niðurstöðum og erum algjörlega til í að fara í minnihluta ef því er að skipta,“ segir Elliði í samtali við mbl.is.

Hann segir þó sjálfstæðismenn hafa þá skyldu að koma að meirihlutasamstarfi í Vestmannaeyjum ef svo fer að Fyrir Heimaey og Eyjalistinn nái ekki saman um málefni.

„Fólki ber náttúrlega skylda til að mynda meirihluta og við erum með langflest atkvæði, á milli 45 og 46%, svo við getum ekki farið að vera með neina kerskni. Þetta snýst ekki um það hvort við séum tilbúin. Það er okkar skylda. Við værum að fara þvert gegn anda sveitarstjórnarlaga ef við færum að vera með einhverja svoleiðis stæla. Það kæmi aldrei til,“ segir Elliði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert