„Ég vil styðja þá báða“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Golli

Flokkur fólksins kemur nýr inn í borgarstjórn Reykjavíkur með einn fulltrúa. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er himinlifandi með niðurstöðuna. „Þarna er Flokkur fólksins að stíga sín fyrstu skref og fóta sig í sveitarstjórnarmálunum,“ sagði Inga í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.  

Flokk­ur flokks­ins fékk 4,3% atkvæða og mun Kol­brún Bald­urs­dótt­ir taka sæti í borgarstjórn fyrir hönd flokksins. 

„Okkur langar til að taka þátt í því að byggja upp nákvæmlega það sem flokkurinn hefur verið að berjast. Koma fólkinu okkar, og öllum, undir þak,“ sagði Inga. 

Aðspurð hvort hún geti hugsað sér að styðja Dag B. Eggertsson og þann meirihluta sem starfaði á síðasta kjörtímabili eða Eyþór Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins, sem fékk átta menn kjörna segir Inga að helst vilji hún styðja báða.

„Ég vil styðja þá báða. Ég vil að allir fari að vinna að heilindum fyrir því að hér sé enginn í tjaldi og hér hafi allir nóg að bíta og brenna. Borgin á að geta séð um þegna sína með sóma.“

Sorglega lítil kosningaþátttaka

Þá sagði Inga að það væri ánægjulegt er að sjá hversu margir gáfu kost á sér í kosningunum og að ákveðin vakning hefur átt sér stað í áhuga á þátttöku í pólitísku starfi. „En um leið virðist vera sorglega lítil þátttaka í kjörsókninni, fólk vill ekki nýta þennan ómetanlega lýðræðisrétt sinn betur. Við þurfum að breyta því og koma því að minnsta kosti í 90%.“

Inga segist spenntust fyrir því að sjá hvort Viðreisn muni snúa sér til hægri eða vinstri í stjórnarmyndunarviðræðum í borginni. Merkilegast við kosningar að hennar mati er hins vegar án efa sú staðreynd að Flokkur fólksins er kominn inn í borgarmálin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert