Meirihlutaflokkarnir tala saman

Oddvitar meirihlutaflokkanna á Akureyri síðustu fjögur ár, mættu saman í …
Oddvitar meirihlutaflokkanna á Akureyri síðustu fjögur ár, mættu saman í viðtal við Ríkissjónvarpið í nótt. Frá vinstri: Halla Björk Reynisdóttir, L-lista, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Framsóknarflokki og Hilda Jana Gísladóttir, Samfylkingu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Oddvitar flokkanna þriggja sem mynduðu meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar síðustu fjögur ár segjast munu byrja á því að tala saman og kanna hvort þeir nái að semja um áframhaldandi samstarf næstu fjögur ár. Þetta sögðu þau öll í samtali við blaðamann Morgunblaðsins og mbl.is í nótt. Listi fólksins, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin héldu öll tveimur mönnum í bæjarstjórn. 

Guðmundur Baldvin Guðmundsson hélt áfram sem oddviti Framsóknar, en oddvitar hinna framboðanna koma nýir inn í bæjarstjórn, Hilda Jana Gísladóttir, Samfylkingu og Halla Björk Reynisdóttir, L-lista, sem sat reyndar í bæjarstjórn 2010 til 2014 en gaf ekki kost á sér fyrir fjórum árum.

„Áfram stærsti flokkurinn“

„Við töpum smá fylgi, sem mér finnst að sjálfsögðu ekki ásættanlegt, en erum samt sátt við að fá þrjá menn og vera áfram stærsti flokkurinn á Akureyri,“ sagði Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins við blaðamann í nótt. Flokkurinn fékk líka þrjá bæjarfulltrúa fyrir fjórum árum.

„Maður vonast til þess að við munum eiga möguleika á því núna að komast í meirihluta, það er að sjálfsögðu alltaf markmiðið að vera í meirihluta og hafa þannig veruleg áhrif á stjórn bæjarins."

Gunnar segir að fulltrúar flokkanna hafi spjallað hverjir við aðra í kvöld og nótt. „Við höfum talað við suma og ég er nokkuð viss um að það eigi við um flesta. Ekkert er þó ákveðið en það gæti komið í ljós fljótlega, jafnvel í fyrramálið, hverjir fara í viðræður. Svo verðum við að sjá hvernig spilast úr því.“

Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, og Hlynur Jóhannsson, oddviti …
Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, og Hlynur Jóhannsson, oddviti Miðflokksins, sem kemur nýr í bæjarstjórn. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert