Nánast hnífjafnt

Konur verða áberandi í borgarstjórn á kjörtímabilinu.
Konur verða áberandi í borgarstjórn á kjörtímabilinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ef horft er á niðurstöður kosninganna í sveitarfélögunum sjö á höfuðborgarsvæðinu og ellefu stærstu sveitarfélögunum annars staðar á landinu þá kemur í ljós að kynjahlutföllin í sveitarstjórnum þessara 18 sveitarfélaga eru nánast jöfn. 

18 sveitarfélög með 180 fulltrúa þar sem 91 karl náði kjöri og 89 konur. Þetta kemur fram í Facebook-færslu Stefáns Eiríkssonar sem hefur tekið saman upplýsingar um kynjahlutföllin í stærstu sveitarfélögum landsins.

Líkt og kom fram á mbl.is í morgun þá verða 15 konur í borgarstjórn Reykjavíkur næsta kjörtímabil en karlarnir eru átta talsins.

Á höfuðborgarsvæðinu eru sjö sveitarfélög með samtals 77 fulltrúa. Samkvæmt niðurstöðum kosninganna náðu 40 konur og 37 karlar kjöri. Konur eru í meirihluta í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og Kjósarhreppi og karlar í Hafnarfirði, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi.

Bara karlar í Borgarfjarðarhrepp

Í fimm sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu eru hlutföll karla og kvenna eins jöfn og unnt er; Kópavogi, Hafnarfirði Garðabæ, Seltjarnarnesi og Kjósarhreppi. Tvö skera sig úr: Reykjavík þar sem hlutfall kvenna í borgarstjórn er 65% og Mosfellsbær þar sem hlutfall karla í bæjarstjórn er 77%.

„Ef við tökum sveitarfélögin öll, 72 talsins, þá voru 502 sveitarstjórnarsæti á lausu. Karlar náðu í 266 sæti eða 53% og konur í 236 eða 47%. Karlar og konur eiga sæti í öllum sveitarstjórnum nema einni; Borgarfjarðarhreppi verður stýrt af körlum næstu fjögur ár,“ segir á Facebook-síðu Stefáns Eiríkssonar. 

Einn karl situr í sveitarstjórn Ásahrepps líkt og í Helgafellssveit og Skaftárhreppi. Ein kona situr í sveitarstjórn Eyja- og Miklaholtshrepps, líkt og í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Tjörnes og Vogum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert