Umboðsmaður flokks sem er ekki í framboði

Stúkan tóm, en niðri er talið.
Stúkan tóm, en niðri er talið. mbl.is/Alexander

Hún er einmanaleg stúkan í Laugardalshöll þar sem almenningi gefst kostur á að fylgjast með talningu atkvæða í borgarstjórnarkosningunum. Raunar er aðeins einn maður í stúkunni, sem kallar sig KÞ en vill ekki koma fram undir nafni. KÞ hefur fylgst með kosningum síðustu 12-15 árin. „Ég er öryggisfulltrúi á vegum KÞ, ekki ÖSE,“ segir hann og vísar í skammstöfun sína.

Lengst af fylgdist hann með talningu í Ráðhúsinu og um tíma á nokkrum stöðum í borginni, en í þessum kosningum er aðeins talið í Laugardalshöll. Í öllum þeim kosningum sem hann hefur fylgst með segist hann aldrei hafa séð almennan borgara fylgjast með. „Það eru bara fulltrúar flokkanna sem mæta. Það mætti segja að ég væri umboðsmaður almennings, eða flokks sem er ekki í framboði.“

mbl.is/Alexander

KÞ segir mikilvægt að nýta þennan rétt sinn til að tryggja að allt fari nú rétt fram. Aðspurður segist hann þó ekki hafa orðið var við neitt vafasamt það sem af er kvöldi. „Þetta er nú mestmegnis heiðarlegt fólk sem stendur í þessu, held ég.“ Hins vegar megi ekki líta fram hjá því að þó við Íslendingar búum við gott kosningakerfi sé alltaf hægt að gera betur.

„Ég myndi vilja að atkvæðin væru geymd í glærum kassa og talning færi fram á kjörstað þannig að atkvæðum væri einfaldlega hrúgað á borð og þau talin fyrir framan fjölda fólks.“

Kjörkassar ættu aldrei að vera fyrir luktum dyrum eða í sendibílum þar sem einungis örfáir hafi auga með þeim, segir hann en ítrekar að hann væni nú ekki kjörstjórn um neitt misjafnt. En þetta sé möguleiki og langsóttari hlutir hafi gerst.  

„Ef ég væri öryggisfulltrúi þá hefði ég áhyggjur af þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert