Viss um að vakna sem borgarfulltrúi

Frá kosningavöku Miðflokksins fyrr í kvöld. Baldur Borgþórsson er hér …
Frá kosningavöku Miðflokksins fyrr í kvöld. Baldur Borgþórsson er hér lengst til hægri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Farið var að fækka á kosningavöku Miðflokksins á Hótel Natura í Vatnsmýri þegar mbl.is mætti þangað á þriðja tímanum. Baldur Borgþórsson, sem skipaði annað sætið á lista flokksins í Reykjavík segist fullviss um að hann verði borgarfulltrúi er hann vaknar í fyrramálið, en hann var á leið heim er blaðamaður náði af honum tali.

„Ég veit alveg hvernig ég ætla að hafa þetta, nú fer ég bara heim og legg mig og svo vakna ég í fyrramálið og þá verð ég borgarfulltrúi. Ég held að þetta lagist okkur í hag núna í síðustu tveimur tölunum, ég ætla að giska á að ég skríði inn í næst síðustu tölum og verði festur í sessi í þeim síðustu. Það er tilfinning fyrir því núna,“ segir Baldur.

Hann segir að framboðið hafi vonast eftir því að ná tveimur til þremur mönnum inn í borgarstjórn, „svona raunhæft,“  en samkvæmt þriðju tölum frá Reykjavík nær einungis oddvitinn Vigdís Hauksdóttir inn í borgarstjórn.

Frá kosningavöku Miðflokksins í kvöld.
Frá kosningavöku Miðflokksins í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er búið að vera upp og niður í könnunum,“ segir Baldur, en hann hefur reglulega mælst inni í könnunum í aðdraganda kosninganna.

„Þetta hangir á lyginni, þetta er eitthvað innan við prósent sem munar á því hvort flokkar eru með tvo eða með einn. En þar sem ég er svo bjartsýnn maður að eðlisfari ákvað ég að fara heim að leggja mig svo ég gæti farið að mynda meirihluta á morgun,“ segir Baldur og hlær.

Stuðningsmenn Miðflokksins söfnuðust saman á Hótel Natura í Vatnsmýri.
Stuðningsmenn Miðflokksins söfnuðust saman á Hótel Natura í Vatnsmýri. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert