„Samfylkingin bugaðist"

Geir H. Haarde ræðir við fréttamenn á Bessastöðum í gær.
Geir H. Haarde ræðir við fréttamenn á Bessastöðum í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Síðdegis á sunnudag, á fundi Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, varð Geir ljóst að það stefndi í stjórnarslit. „Þá kom fram skilyrði um að stjórnarforystan flyttist á milli flokkanna, það sem Samfylkingin kallar verkstjórnarvald en er í daglegu tali kallað forsætisráðherraembættið,“ segir Geir í viðtali við Morgunblaðið.

– Er það þitt mat, að þið hefðuð annars getað náð saman?

„Ég er sannfærður um að náðst hefði niðurstaða um önnur atriði, sem til viðræðu voru síðastliðna daga, ef ekki hefði verið sett skilyrði af þessu tagi. Við höfum hingað til borið gæfu til þess formennirnir að leiða mál til lykta, komið okkur saman um og leyst öll deilumál.

Ég hef ekki orðið var við það fyrr en núna að það væri sérstök óánægja í Samfylkingunni með mína verkstjórn í ríkisstjórninni – það er nýtt. En ef það var vandamálið, þá bauðst ég til þess í gær að ég skyldi stíga til hliðar og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gæti tekið við. Ég sá þá fyrir mér að við myndum bæði víkja, formaður Samfylkingarinnar og ég, og við tæki tíu manna ríkisstjórn undir forystu Þorgerðar Katrínar.

Vandinn í þessu öllu hefur verið sá að Samfylkingin er sjálfri sér sundurþykk og hún er í grunninn margir flokkar og flokksbrot, sem frá byrjun höfðu ólíka afstöðu til þessa ríkisstjórnarsamstarfs. Sú sem hélt þessu öllu saman var formaðurinn, Ingibjörg Sólrún, en það var áberandi að í hvert sinn sem hún var fjarverandi, varð mikill órói í þingflokknum og annars staðar í flokknum.

Mest áberandi varð það í síðustu viku, þegar haldinn var fundur í flokksfélaginu í Reykjavík, þar sem ýmsir úr þingliðinu mættu, undir forystu varaformanns flokksins og formanns þingflokksins, og samþykkt var niðurstaða um að það bæri að slíta stjórnarsamstarfinu – á meðan formaður flokksins var erlendis vegna veikinda!

Þetta er allt með ólíkindum og á þeim tímapunkti var krafan um að skipta um stjórnarforystu ekki komin fram. Það gerðist ekki fyrr en í gær. Þannig að Samfylkingin hefur ekki getað staðið af sér það ástand sem skapast hefur í samfélaginu, og bugaðist í stað þess að standa í lappirnar, og hún er eins og ég sagði í dag, í tætlum sem stjórnmálaflokkur."

Lausn í máli Seðlabanka

– Það var eftir því tekið að þú talaðir fallega um formann Samfylkingarinnar, en hún ekki eins fallega um þig?

„Ég vil bara segja, að ég tel hana heiðarlega manneskju, okkar samstarf hefur verið með ágætum og ekkert borið á milli persónulega. Ég ætla að halda mig við það, ekki að segja annað en satt og rétt í því efni. En henni hefur gengið erfiðlega með sitt bakland; það hefur ekki sýnt henni nauðsynlega samstöðu og ég tel uppákomur þegar hún var fjarverandi lýsandi dæmi um það. Svona myndi sjálfstæðisflokkurinn aldrei haga sér."

– En hún talar um að mál hafi strandað hjá Sjálfstæðisflokknum?

„Það er fyrst og fremst eitt mál, sem Samfylkingin talar um í því sambandi, því önnur atriði höfum við afgreitt jöfnum höndum og staðið sameiginlega að því. Það sem Samfylkingin á við er Seðlabankinn og yfirstjórn hans. Ég bendi á að það var fyrst í gær, sem Samfylkingin eða viðskiptaráðherra ákvað að gera breytingar á Fjármálaeftirlitinu, en þó ekki fyrr en frá og með 1. mars, hvað varðar forstjórann. Við höfum rætt við Samfylkinguna um að við vildum gera lagabreytingar sem lúta að Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum, og kanna til hlítar hvort rétt sé að sameina þessar stofnanir á nýjan leik. Við fengum erlendan sérfræðing til að fara yfir skipulagið á Fjármálaeftirlitinu og höfum jafnframt leitað ráða hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um þau mál. Ég er viss um að hægt hefði verið að leiða þetta mál til lykta í febrúarmánuði fyrir 1. mars, sem er dagsetningin sem valin var gagnvart starfslokum forstjóra Fjármálaeftirlitsins."

– Var sú ákvörðun tekin upp á einsdæmi viðskiptaráðherra?

„Það virðist vera."

– Samfylkingin hefur einnig kvartað undan því að ekkert miði hvað varðar undirbúning að stjórnarskrárbreytingum vegna hugsanlegrar aðildar að Evrópusambandinu?

„Þær fara nú yfirleitt ekki fram fyrr en í aðdraganda kosninga. Það lá fyrir að ef þingkosningar yrðu í vor, þá yrði að gera stjórnarskrárbreytingar, og það stóð ekkert á okkur. Ég var með tillögu í því efni, að fá lítinn hóp sérfræðinga sem ég hafði nafngreint, til að koma með texta, í stað þss að fá fulltrúa allra flokka enn einu sinni að því borði. Þannig að þetta gat ekki verið ágreiningsmál, að minnsta kosti ekki á þessu stigi, og sama má segja um framkvæmd efnahagsáætlunarinnar í samstarfi okkar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við berum ábyrgð á því

í forsætisráðuneytinu og aldrei kom annað til greina en að fylgja því eftir af okkar hálfu. Og ef hér verður mynduð ný ríkisstjórn, þá treysti ég því og vona að hvergi verði hvikað frá þeirri efnahagsáætlun."

Ekki vegna landsfundar

– Það spurðist að stjórnarflokkarnir hefðu gert samkomulag um uppstokkun á ráðherraskipan fyrir jól?

„Það er kannski ekki rétt að tala um samkomulag, en við ræddum það að skipta verkum með nýjum hætti í ríkisstjórninni, og gera frekari skiplagsbreytingar í stjórnkerfinu. Ég var með ákveðnar tillögur þar að lútandi, meðal annars um að formaður Samfylkingarinnar yrði fjármálaráðherra, og við fengjum utanríkisráðuneytið á móti. Síðan yrðu aðrar breytingar á skipan ráðuneyta. Ég tel að með þessu hefði formaður Samfylkingarinnar fengið mikil tækifæri til að fylgja eftir stefnu síns flokks í ríkisfjármálum og að þetta hefði verið mjög góð leið til að þétta samstarfið á milli flokkanna, en þessu var slegið á frest, meðal annars vegna persónulegra aðstæðna formanns Samfylkingarinnar, sem allir höfðu að sjálfsögðu góðan skilning á. Þannig að það er rangt að það hafi staðið upp á okkur að gera slíkar tillögur eða ráðast í slíkar breytingar. Látið var að því liggja að þetta snerist um að fresta verkefnum fram yfir landsfund Sjálfstæðisflokksins, sem hafði nákvæmlega ekkert með þetta að gera."

– Það komu ýmislegt upp úr dúrnum við stjórnarslitin, sem ekki hafði heyrst af áður – hefði ekki þurft að upplýsa almenning um þetta?

„Svona stjórnarsamstarf, og samstarf tveggja formanna, byggist á því að geta unnið að málum í trúnaði og sýnt ákveðna hollustu gagnvart sjónarmiðum hvors annars. Og í þessu máli, varðandi breytingar fyrir áramót, var um það að ræða og ég sá ekki ástæðu til að segja opinberlega frá því, þó að það hefði eflaust getað komið mér vel á þeim tíma. Það verður að vera trúnaður um mál á viðkvæmu stigi."

– Kom ekki til greina að upplýsa um það þegar mótmælin urðu háværari síðustu viku?

„Ég vil halda þessum mótmælum alveg fyrir utan þessa atburðarás. En auðvitað var þetta allt mjög óvenjulegt, formaður Samfylkingarinnar var fjarverandi í tvær vikur og það logaði allt í illdeilum á meðan. Við vorum ekki í stakk búin til að koma með miklar tilkynningar meðan ástandið var svona – svo breyttust aðstæður hjá mér og Sjálfstæðisflokknum fyrir síðustu helgi."

– Hvað tekur nú við?

„Af okkar hálfu liggur fyrir að við erum tilbúin í Sjálfstæðisflokknum að halda áfram að koma að stjórn landsins og munum ekkert hlaupa frá þeim verkefnum ef sú staða myndast að þörf er fyrir okkar krafta.

Við erum búin að leggja drög að framkvæmd efnahagsáætlunarinnar, sem þegar er byrjað að vinna eftir. Það er ýmislegt jákvætt framundan þó að ástandið sé erfitt, ört minnkandi verðbólga og lækkandi vextir í farvatninu og góðar horfur varðandi viðskiptajöfnuð og gjaldærisflæði inn í landið. En það eru auðvitað mikil og flókin verkefni framundan, eins og að létta gjaldeyrishöftum og skjóta styrkum stoðum undir bankana, svo við getum veitt fyrirtækjum nauðsynlega þjónustu og spornað við atvinnuleysi, að ljúka endurfjármögnun og ná samkomulagi við erlenda lánardrottna, grípa til ráðstafana til að koma til móts við heimili í vanda, og svo framvegis.

Þetta eru gríðarlega mikil verkefni sem þarf að ráðast í, en búið er að leggja undirstöðuna í flestum tilvikum og sumt er þess eðlis að ekki er ætlast til þess að málin séu komin lengra. Við erum búin að vinna mjög ötullega, hörðum höndum, alveg frá því í október, að því að koma okkur út úr bankahruninu, en það er ekki til þess ætlast að gert sé eitt kraftaverk á dag í þeim efnum, og það mun koma í ljós í nýrri ríkisstjórn að hún hefur ekki slík ráð undir rifi hverju."

Ekki fram í vor


– Þið hafið boðist til þátttöku í þjóðstjórn og gerið kröfu um forystu?

„Já, það er eðlilegt, þegar um er að ræða stjórn margra flokka, að stærsti flokkurinn gegni forystu."

– Kæmi til greina að fá utanþingsstjórn?

„Nei, ég tel að það væri mjög óheppilegt og myndi lýsa uppgjöf af hálfu stjórnmálaflokkanna í landinu. En hvað varðar stjórnarforystu, þá má velta öllum hlutum fyrir sér."

– Veikindi þín hafa verið nefnd í rökstuðningi fyrir stjórnarslitunum, að þú hafir ekki heilsu til að gegna áfram embætti forsætisráðherra í erfiðu árferði?

„Það var greint í mér lítið en illkynja mein sem þarf að fjarlægja. Meinið, sem fannst fyrir tilviljun, er á byrjunarstigi og því á að vera hægt að fjarlægja það með speglunaraðgerð. Slík aðgerð er ekki framkvæmd hér á landi og því þarf ég að fara utan í nokkra daga vegna þessa. Um aðrar fjarvistir af þessu tilefni verður vonandi ekki að ræða.

Þannig að eins og ég sagði á blaðamannafundinum í Valhöll síðastliðinn föstudag, þá eru batahorfur ágætar og ég mun hafa óskert starfsþrek næstu mánuði hið minnsta. Og ég vil gjarnan koma því að, að ég er líkamlega í mjög góðu ásigkomulagi að öðru leyti og stunda líkamsrækt af krafti.

Hitt er annað mál, að fyrst landsfundur Sjálfstæðisflokksins stendur fyrir dyrum og kosningar eru framundan, þá bar mér að huga að langtíma hagsmunum Sjálfstæðisflokksins. Í ljósi þeirrar óvissu sem óhjákvæmilega fylgir meini sem þessu, ákvað ég að eðlilegast væri að ég gæfi ekki kost á mér áfram til formennsku í flokknum. Með því móti er jafnframt skapað svigrúm fyrir kynslóðaskipti á stóli formanns Sjálfstæðisflokksins, en þeir þrír formenn sem setið hafa allt frá 1983 eru allir á líku reki. Það má gera ráð fyrir að fólk sem er 15 til 20 árum yngra hasli sér völl á þessum vettvangi."

– En hyggstu bjóða þig fram til Alþingis í vor?

„Ég hef ekki gert ráð fyrir því. Það er rökrétt að hætta þá alveg."

– Það hlýtur að vera ákveðinn léttir að hverfa á braut úr forsætisráðuneytinu eftir það sem á undan er gengið?

„Persónulega er það kannski léttir, á vissan hátt, en maður er búinn að vera svo á kafi í þessum verkefnum, og þekkir vandamálin orðið svo vel, að ég hef talið það skyldu mína að hafa forystu um að leysa vandamálin. Og talið að það væri ábyrgðarhluti af minni hálfu að stökkva frá því með einhverjum hætti. Það höfum við ekki gert. Það er Samfylkingin sem ákveður að setja okkur úrslitakosti í þessu samstarfi."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina