Býst við stjórn á laugardag

Jóhanna Sigurðarsdóttir ræðir við fréttamenn í þinghúsinu í dag.
Jóhanna Sigurðarsdóttir ræðir við fréttamenn í þinghúsinu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhanna Sigurðardóttir segir, að viðræður Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs hafi gengið mjög vel í dag. Sagðist Jóhanna bjartsýn á að flokkarnir myndi nýja ríkisstjórn um helgina, líklega á laugardag.  Sagði hún að eitt fyrsta verk nýrrar stjórnar yrði að breyta um stjórn í Seðlabankanum.

„Við fáum velferðarstjórn," sagði Jóhanna. Hún sagði, að verið væri að reikna út ákveðna hluti, sem rætt hefði verið um því flokkarnir vildu ekki fara í aðgerðir sem ríkissjóður hefði ekki efni á.  Hún sagði að flokkarnir tveir væru á góðri leið með að ná niðurstöðu um verkefnaáætlun, sem myndi vekja góðar vonir og væntingar hjá fyrirtækjum og heimilum. Jóhanna lagði þó áherslu á, að ekki yrði gengið lengra í loforðum um aðgerðir en hægt væri að standa við.

Jóhanna sagði, að í viðræðum flokkanna væri fyrst og fremst verið að hugsa um næstu tvo mánuði eða fram að kosningum. Nauðsynlegt væri, að endurreisa heimili og atvinnulífíð.  Þá væri ljóst, að fara yrði í ýmsar aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum og grundvallaratriði væri, að standa vörð um það samkomulag, sem Íslendingar hafa gert við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Jóhanna sagði aðspurð, að enginn ágreiningur hefði komið fram um að hún yrði forsætisráðherra nýrrar stjórnar. Þá sagðist hún telja sjálfgefið, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, ætti sæti í stjórninni.

Jóhanna var spurð um þá ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar, sjávarútvegsráðherra, að gefa út reglugerð um hvalveiðikvóta til næstu fimm ára. Sagðist Jóhanna vera mjög gáttuð á þessari ákvörðun og þetta væri umdeild aðgerð, sem ekki muni auka á ímynd þjóðarinnar. Sagðist hún eiga von á því, að nýr sjávarútvegsráðherra afturkallaði reglugerðina. 

Nánar verður rætt við Jóhönnu í Mbl sjónvarpi.

mbl.is