Samfylkingin stærst

Samfylkingin er stærsti stjórnmálaflokkurinn um þessar mundir samkvæmt nýrri könnun, sem Capacent hefur gert fyrir Ríkisútvarpið. Samfylkingin og Vinstri grænir gætu myndað meirihlutastjórn ef niðurstaða kosninga yrði í samræmi við könnunina.

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist vera 62%.

Könnunin var net- og símakosning, gerð dagana 30. janúar til 15. febrúar. Úrtakið var 3000 manns og svarhlutfall var 62,6%.

Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú 27,7% og hefur aukist um 6 prósentur frá könnun Capacent um síðustu mánaðamót. Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst einnig og mælist nú 25,8%, fylgi VG mælist 24,1% og fylgi Framsóknarflokksins 15%. Fylgi Frjálslynda flokksins og Íslandshreyfingarinnar mælist 2,5% hvors flokks.

Samkvæmt þessu fengi Samfylking 19 þingmenn, Sjálfstæðisflokkur 18, VG 16 þingmenn og Framsóknarflokkur 10.

mbl.is