Bjarni kjörinn formaður

Bjarni Benediktsson ávarpar landsfundinn eftir að hann var kjörinn formaður.
Bjarni Benediktsson ávarpar landsfundinn eftir að hann var kjörinn formaður. mbl.is/Ómar

Bjarni Benediktsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins í dag. Bjarni fékk 990 atkvæði af 1705 greiddum atkvæðum eða 58,1%. Kristján Þór Júlíusson fékk 688 atkvæði eða 40,4%. Aðrir fengu 10 atkvæði eða færri, 5 atkvæði voru ógild og 2 auð.

Bjarni þakkaði fundargestum og sagðist vilja taka orð tengdaföður síns sér í munn: „Ég er eins og skyr, ég er mjög hrærður."

Táknræn afhending valda
Geir H. Haarde, fráfarandi formaður, afhenti Bjarna lykil að Valhöll og vildi með þeim hætti afhenda völdin nýjum formanni með táknrænum hætti.  

Kristján Þór óskaði Bjarna til hamingju. Hann sagði að þrjár mínútur væru í að sjö sólarhringar væru liðnir frá því hann lýsti yfir framboði í formannsembætti flokksins. Hann þakkaði fjölskyldu sinni og stuðningsmönnum sínum. „Það kann að vera væmið en ég lít á Sjálfstæðisflokkinn sem hluta af minni fjölskyldu. Meðan við stöndum saman þá stendur ekkert fyrir okkur," sagði Kristján Þór og lagði áherslu á að flokksmenn stæðu saman um þann ágæta og góða dreng sem Bjarni Benediktsson væri.

Munstrar sig í áhöfn Bjarna
Kristján sagði að miklir kólgubakkar væru við loft og ógnir steðjuðu að íslenskri þjóð. Siglingin yrði  tekin á íslenskum forsendum en ekki erlendum. „Ég munstra mig í áhöfn Bjarna Benediktssonar," sagði Kristján Þór og voru þessi orð hans viðeigandi en hann er gamall skipstjóri og stýrði skipum sem gerð voru út frá Dalvík árin 1978-1981.

Nú stendur yfir kjör í embætti varaformanns.  

Bjarni Benediktsson mun flytja ræðu seinna í dag þegar landsfundarfulltrúar hafa lokið afgreiðslu ályktana.

Kristján Þór Júlíusson og Bjarni Benediktsson voru í formannskjöri.
Kristján Þór Júlíusson og Bjarni Benediktsson voru í formannskjöri. mbl.is/
mbl.is

Bloggað um fréttina