22 ára þingferli Valgerðar lokið

Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins sat sinn síðasta þingfund í dag. Valgerður gefur ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu.

Valgerður kvaddi sér hljóðs í lok þingfundar í dag og tilkynnti að hún hefði setið sinn síðasta fund í sölum Alþingis.

Valgerður á að baki 22 ára þingsetu. Hún hefur gegnt þingflokksformennsku og var ráðherra í tæp 8 ár, fyrst sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra en síðar utanríkisráðherra.

Valgerður var á leið í félagsmálaráðuneytið en ráðherraskipan breyttist þegar Finnur Ingólfsson ákvað að hætta í stjórnmálum og láta af ráðherraembætti og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið kom í hlut Valgerðar.

„Ég var fyrsta konan og vissulega var vantrú á að kona gæti gegnt þessu embætti þar sem þetta voru atvinnumál. En raunin er sú að ég hef alltaf haft gríðarlegan áhuga á atvinnumálum. En ég hefði vissulega viljað hætta við aðrar aðstæður en eru í þjóðfélaginu í dag, það er viðsjárverðir tímar, því er ekki að neita. En ég er ekki í nokkrum vafa um að við munum vinna okkur út úr því. Ég þakka fyrir þessi ár og óska Alþingi alls hins best alla tíða,“ sagði Valgerður í sinni síðustu ræðu úr púlti Alþingis í dag.

Finnur Ingólfsson afhendir Valgerði lyklavöldin í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu á …
Finnur Ingólfsson afhendir Valgerði lyklavöldin í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu á gamlársdag 1999.
mbl.is

Bloggað um fréttina