Sigmundur Davíð spáir öðru hruni

Skýrsla endurskoðendafyrirtækisins Olivers Wymans leiðir í ljós að framundan er allsherjarhrun íslensks efnahagskerfis ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða. Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. Hann segir stjórnvöld blekkja almenning með því að halda skýrslunni leyndri, að því er fram kom í fréttum Sjónvarpsins í kvöld.

Sigmundur Davíð hefur sýnt fréttastofu RÚV minnisblað þar sem rætt er um niðurstöður skýrslunnar. Hann segir nauðsynlegt að upplýsa um stöðuna fyrir kosningar en að stjórnvöld vilji fegra ástandið.

Forsagan er sú að í kjölfar bankahrunsins skipaði Fjármálaeftirlitið endurskoðunarfyrirtækið Deloitte til að verðmeta þær eignir sem voru fluttar úr gömlu bönkunum til að mynda efnahag Nýja Kaupþings, Nýja Landsbankans og Íslandsbanka.  Fyrirtækið Oliver Wyman yfirfór verðmatið fyrir hvern banka og skilaði Fjármálaeftirlitinu bráðabirgðaskýrslu í síðustu viku.

Lokaskýrsla hefur borist stjórnvöldum. Stjórnvöld hugðust á sínum tíma færa 6.000 milljarða úr gömlu bönkunum og gerðu ráð fyrir að innheimta 3000 milljarða. Endurnýjað mat í skýrslunni gerir ráð fyrir að færa þurfi aftur í gömlu bankana 2.000 milljarða og að 2.000 milljarðar innheimtist af þeim 4000 milljörðum sem eftir standa.  Á heildina litið þá innheimtast því 2000 milljarðar í stað 3000 milljarða. Sigmundur Davíð segir að þetta sýni slæma stöðu fyrirtækjanna og bankanna. Allsherjarhrun sé framundan. 

Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði, sagði í samtali við fréttastofu Sjónvarpsins að reynist þessar tölur réttar, þýði það ekki endilega hrun íslenskra fyrirtækja - en það leiði hinsvegar til þess að íslensk fyrirtæki eigi erfiðara með að fá lánsfé í útlöndum. 
 

mbl.is

Bloggað um fréttina