Þjóðarflokkurinn í framboð

mbl.is/Ómar

Þjóðarflokkurinn undirbýr endurkomu í stjórnmálin á ný en flokkurinn bauð síðast fram í þingkosningum árið 1987. Pétur Valdimarsson er enn formaður flokksins en hann setti af stað undirbúningsnefnd sl. haust til að undirbúa framboð.

Í tilkynningu frá undirbúningsnefndinni segir að stefnuskrá flokksins frá 1987 standist fyllilega tímans tönn. Í ljósi þess hafi verið einróma niðurstaða nefndarinnar að flokkurinn muni bjóða fram í næstu kosningum til Alþingis.

Þjóðarflokkurinn var ekki afskráður og mun starfa áfram undir sömu kennitölu. Gunnar Páll Ingólfsson, formaður undirbúningsnefndarinnar, segir við mbl.is að starfsemin verði kynnt nánar með auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi á næstunni. Stefnan sé að bjóða fram í öllum kjördæmum.

Gunnar Páll segir ætlunina að vera tilbúnir með framboð ef ske kynni að efnt verði til þingkosninga á næstu mánuðum.

mbl.is