Fréttaskýring: Mikill munur á auglýsingakostnaði

Mjög misjafnt er hversu miklu fé flokkarnir sem bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga nú hafa varið í auglýsingar. Samfylkingin hefur eytt mestu og Sjálfstæðisflokkurinn næstmestu, samkvæmt tölum frá Creditinfo, og komast aðrir flokkar vart með tærnar þar sem þessir flokkar hafa hælana.

Áður en kosningabaráttan hófst sammæltust Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin – grænt framboð um að eyða ekki meiru í auglýsingar, hvort heldur í blöðum, á netinu eða í ljósvakanum, en 11 milljónum króna á tímabilinu frá 29. apríl og fram að kosningum 29. maí.

Besti flokkurinn var ekki með í því samkomulagi og er því ekki í samantekt Creditinfo. Að sögn Gauks Úlfarssonar, fjölmiðlafulltrúa flokksins, er auglýsingakostnaður framboðsins nú 600 þúsund kr. og fer ekki yfir eina milljón.

Tölur Ceditinfo ná fram á sl. mánudag og hafði Samfylkingin þá eytt 7,4 milljónum í auglýsingar, sem eru 67,1% af 11 milljóna króna hámarkinu. Ætla má þó að kostnaður Samfylkingar sé orðinn meiri. Flokkurinn gaf út átta síðna fylgiblað með Fréttablaðinu á miðvikudag. Auk þess birtust t.d. tvær auglýsingar frá flokknum í Fréttablaðinu á þriðjudag.

Munu ekki fara yfir hámarkið

„Við fylgjumst vel með þessu og pössum mjög vel upp á að fara ekki yfir þessa upphæð,“ segir Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingar. Þá segir hún blaðið sem fylgdi Fréttablaðinu í gær vera „fylgiblað, ekki auglýsingu“. Hún hafði í gær ekki tölur um kostnað sem eru nýrri en frá mánudegi.

Sjálfstæðisflokkur hafði á mánudag eytt 4,7 milljónum sem eru 42,5% af hámarkstölu. Gera má ráð fyrir að kostnaður Sjálfstæðisflokks hafi einnig hækkað síðan á mánudag, enda birtist t.d. auglýsing frá flokknum í Morgunblaðinu í gær.

Fylgja settri birtingaráætlun

Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokks, segir að eftir að flokkarnir gerðu með sér áðurnefnt samkomulag hafi sjálfstæðismenn sett sér birtingaráætlun í samræmi við það. „Við höfum fylgt og munum áfram fylgja þeirri áætlun svo ég á ekki von á öðru en að kostnaður okkar komi til með vera töluvert innan markanna.“ Hann hefur ekki tölur sem eru nýrri en þær frá Creditinfo.

Athygli vekur hversu langt Framsóknarflokkur og Vinstri græn eru frá samþykktum hámarkskostnaði. Kostnaður Framsóknar var á mánudag ekki nema 3,9% af 11 milljóna hámarkinu en kostnaður VG 14,1% .

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: