Fuglaflensa

Eftir Jón Aðalstein Bergsveinsson
jab@mbl.is

Flensan berst með fuglum og er svipuð þeirri gerð veirunnar, sem talið er að hafi átt uppruna sinn í fuglum en stökkbreyst og borist í menn með þeim afleiðingum að inflúensufaraldur gekk yfir Evrópu á árunum 1918-1920 undir heitinu spænska veikin. Í báðum tilvikum er um að ræða veirur af H- og N-stofni. H5N1 hefur fram til þessa verið staðbundin og aðallega greinst í alifuglum í SA-Asíu. Á síðustu mánuðum hefur veikin hins vegar breiðst út og m.a. greinst í farfuglum í Evrópu. Heilbrigðisyfirvöld hér á landi hafa ekki talið ástæðu til að óttast að fuglaflensa þessarar gerðar berist til Íslands fyrr en hún hefur greinst í Bretlandi en þar hafa farfuglar viðdvöl á leið sinni hingað til lands. Ótti manna beinist að því að fuglaflensuveiran stökkbreytist, líkt og gerðist með veiruna sem varð að spænsku veikinni, og geti orðið að inflúensufaraldri. Gerist það er talið að margar milljónir manna smitist af flensunni víða um heim. Ríkisstjórn Íslands hefur gripið til varúðarráðstafana vegna þessa, m.a. með 56 milljón króna aukafjárveitingu til að efla viðbúnað sóttvarnarlæknis og almannavarna vegna mögulegrar hættu á inflúensufaraldri hér á landi.

MARGAR GERÐIR AF FLENSU

Það er fjarri að H5N1 sé eina skaðlega flensugerðin. Eins og gefur að skilja er H5N1 einungis eitt af mörgum afbrigðum en níu gerðir eru til bæði af H-stofni veirunnar og N-stofni hennar. Asíuflensan, sem braust út á árunum 1889-90, var t.d. H2N2 afbrigði flensunnar af A-stofni en spænska veikin var H1N1 afbrigði hennar. Auk þessa eru fjölmargar aðrar flensugerðir til sem hrjáð hafa menn í gegnum tíðina.

Á meðal helstu flensuflokkanna er árlega flensan svokallaða, sem berst m.a. hingað til lands í janúarmánuði ár hvert. Inflúensan ber heitið H3N2 og er af A-stofni. Þótt hún teljist vart til fjölmiðlaefnis látast engu að síður um 36.000 manns af hennar völdum í Bandaríkjunum á ári hverju. Á síðastliðnum 12 árum hefur tíðni flensutilvika af H3N2 afbrigði flensu aukist gríðarlega eða stokkið úr 1% árið 1994 í 12% árið 2003 og 91% árið 2005. Þá hefur árstíðabundin inflúensa borist úr mönnum í svín í S-Kína og er talin hætta á að svín geti einnig smitast af H5N1. Auk þessa eru 16 afbrigði til af fuglaflensu. Hins vegar er einungis óttast að hið skæða H5N1 afbrigði hennar geti stökkbreyst með þeim afleiðingum að hún geti borist á milli manna.

NOKKUR FLENSUAFBRIGÐI:

1889-90 - Asíuflensan: allt að 1 af hverjum 1000 lést af völdum flensunnar sem var H2N2 afbrigði.
1900 - Ítalska flensan: H3N8.
1918-20 - Spænska veikin: 500 milljónir veiktust og 40 milljónir létust af H1N1 afbrigði flensunnar, þar af 484 Íslendingar.
1957-58 - Asíuflensan: 1-1,5 milljónir manna létust af H2N2 afbrigði flensunnar.
1968-69 - Hong Kong veikin: 300.000 til 1 milljón manna létust af völdum H3N2 afbrigði veirunnar.

MÖGULEGAR SMITLEIÐIR

Þótt skæðustu afbrigði fuglaflensuveirunnar hafi síðastliðin þrjú ár nær eingöngu verið bundin við alifugla í SA-Asíu, m.a. Víetnam, Kambódíu og Taíland, þá hefur hún greinst í auknum mæli í villtum svönum, ekki síst í öndum og svönum í nokkrum Evrópuríkjum í byrjun þessa árs. Um miðjan febrúar greindist H5N1 á þýsku eyjunni Rügen og skömmu síðar í Frakklandi. Þá hefur veiran einnig greinst á Ítalíu, í Ungverjalandi, Grikklandi, Indlandi, Kína, Rúmeníu, Úkraínu, í Rússlandi og víðar. Veiran hefur hins vegar hvorki greinst í neinu landa Skandínavíu né á Bretlandseyjum.

Heilbrigðisyfirvöld hér á landi fylgjast grannt með því hvort H5N1 greinist á Bretlandseyjum. Þangað koma farfuglar á leið sinni hingað til lands og gerist það eykur það hættuna til muna að H5N1 til Íslands.

ÞRJÚ ÁHÆTTUSTIG GREINIST FUGLAFLENSA Á ÍSLANDI

Fram til þessa hefur verið talin lítil hætta á að H5N1 berist hingað til lands. Er ástæðan fram til þessa sú að veiran hefur ekki greinst á Bretlandseyjum eða í öðrum nágrannaríkjum. Landbúnaðarstofnun hefur gert áhættuáætlun líkt og fleiri Evrópuríki, sem á að grípa til greinist H5N1 hér á landi.

Fyrsta áhættustig áætlunarinnar gerir ráð fyrir því að lítil hætta sé á að fuglaflensan berist til Íslands. Þó skal tryggja að alifuglar hafi ekki aðgang að yfirborðsvatni. Þá sé þess gætt að þeir séu ekki fóðraðir utandyra auk þess sem tryggja á að ekkert í umhverfi alifuglabúa laði að villta fugla, sem geta borið flensuna með sér. Þá skal jafnframt tryggja góðar meindýravarnir.

Í öðru áhættustigi er gert ráð fyrir því að H5N1 hafi greinst í Bretlandi og nágrannaríkjunum. Þar af leiðandi er mikil hætta á að fuglaflensa berist hingað til lands og er gert ráð fyrir því að hún greinist í farfuglum. Til að koma í veg fyrir að smit berist inn á alifuglabú er m.a. lagt til að öllum alifuglum verði haldið innandyra og þeim ekki hleypt út. Þá skal setja hatta á allar lofttúður og tryggja að alifuglabú laði ekki að villta fugla. Þá skal aðeins einn inngangur með fordyri vera í hverju eldishúsi og þar verða þvottur og sótthreinsun, m.a. áður en haldið er inn í sjálft eldishúsið. Þá er mælti til að óviðkomandi sé bannaður aðgangur að alifuglabúum. Beri hins vegar nauðsynlega gesti að garði skulu þeir klæðast sérstökum hlífðarfötum. Þetta er gert til að tryggja að almennum hreinlætisreglum verði framfylgt en smit berast fyrst og fremst inn í alifuglabú með fugladriti.

Í þriðja áhættustigi er gert ráð fyrir því að H5N1 hafi greinst í alifuglum á Íslandi. Samkvæmt henni tekur viðbragðsáætlun Landbúnaðarstofnunar gildi og verður gripið til samsvarandi aðgerða og gert hefur verið í þeim löndum sem fuglaflensuveiran hefur greinst.

FLENSULYFIN

Árið 2004 tókst vísindamönnum að finna veirustofninn sem olli spænsku veikinni með því að rannsaka sýni úr jarðneskum leifum konu sem varðveist höfðu í Alaska og úr sýnum sem tekin höfðu verið úr bandarískum hermönnum sem létust í fyrri heimsstyrjöld. Niðurstaðan var sú að próteinsameind spænsku veikinnar, sem talið er að upphaflega hafi verið fuglaflensuveira, hafði stökkbreyst og orðið að inflúensuveiru sem barst í menn. Með rannsókn á sýnunum tókst að búa til bóluefni gegn flensunni.

Sé mið tekið af því að spænska veikin geisaði á árunum 1918 til 1920 er ljóst að þróun bóluefnis og framleiðsla á því tekur afar langan tíma og getur verið erfitt að bregðast við ef H5N1 afbrigði fuglaflensuveirunnar stökkbreytist og berst á milli manna með þeim afleiðingum að hún verði að skæðum inflúensufaraldri.

EINKENNI FLENSU

Enkenni fuglaflensusmits eru svipuð venjulegri inflúensu. Þeir sem smitast finna til þreytu, hita, særinda í hálsi, hósta og vöðvaverkjum. Líkt og átti við um smit af völdum spænsku veikinnar hrakar sjúklingum hratt. Þeir fá fljótlega lífshættulega lungnabólgu sem leiðir til öndunarerfiðleika, nýrnabilunar verður vart og líffæri hætta að starfa. Að lokum deyja sjúklingarnir ef ekki er brugðist við.

Ekkert bóluefni er til gegn H5N1. Fram til þessa hefur flensulyfið Tamiflu verið sagt geta dregni úr virkni veirunnar. Hins vegar er óvíst hvort flensulyfið komi í veg fyrir að menn smitast. Lyfið er einungis hægt að taka í forvarnarskyni og verður taka innan við tveimur sólarhringum eftir að komist er í snertingu við smitaða einstaklinga eða sýkta fugla.


  • Fréttavefur Landlæknisembættis Íslands
  • Upplýsingar um sóttvarnir og smitjúkdóma
  • Samantekt upplýsinga um fuglaflensuna hjá Landlæknisembættinu
  • Upplýsingar á vefsvæðinu Wikipedia um fuglaflensuna
  • Vefur BBC um útbreiðslu fuglaflensuveirunnar
  • Ýmsar fréttir um fuglaflensuveiruna og útbreiðslu hennar
  • Fréttir um þróun fuglaflensuveirunnar og viðbrögð við henni
  • Fréttir breska dagblaðsins Financial Times um fuglaflensuna
  • Upplýsingavefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um fuglaflensuna
  • Upplýsingavefur bandaríska sóttvarnareftirlitsins
  • Skilgreining á áhættustigum vegna fuglaflensu
  • Spurningar og svör um fuglaflensuna