Tveir fóru holu í höggi á sömu braut

Viðar Gylfason t.v. tekur við verðlaunum úr hendi Ásgeirs Ragnarssonar, …
Viðar Gylfason t.v. tekur við verðlaunum úr hendi Ásgeirs Ragnarssonar, formanns Golfklúbbsins Vestarrs, fyrir að fara holu í höggi. mbl.is/Gunnar Kristjánsson

Opið afmælismót Ásgeirs Ragnarssonar fór fram á Bárarvelli um helgina, þar sem 48 þátttakendur þreyttu höggleik í blíðskaparveðri. Það óvænta gerðist að tveir fóru holu í höggi á sömu braut, annarri braut. Enn merkilegra var að þeir hétu báðir Viðar. Runólfur Viðar Guðmundsson úr Golfklúbbnum Vestarr í Grundarfirði og hinn var Viðar Gylfason úr Golfklúbbnum Jökli í Ólafsvík.

Þegar fréttaritara bar að garði var Runólfur Viðar stunginn af í brúðkaupsveislu en Viðar Gylfason var að taka á móti verðlaunum sem stigahæstur karla í mótinu. "Þetta var alveg ótrúlegt," sagði Viðar, "ég sló upphafshöggið og sá kúluna skoppa, en þegar ég kom að flötinni hélt ég að hún hefði farið yfir flötina, eftir nokkra leit kíkti ég ofan í holuna og þar var kúlan. Ég fíla þennan völl alveg í botn," sagði Viðar, "og hef nokkrum sinnum spilað á honum."

Brautin er par fjórir

Þetta er í fyrsta sinn í 9 ára sögu Bárarvallar sem einhver fer þar holu í höggi. Braut tvö er par 4 og 202 metrar á lengd. Þannig hagar til að ekki sést inn á flötina við teighöggið, einungis í efsta hluta fánans. Ásgeir Ragnarsson, formaður Golfklúbbsins Vestarrs sem hélt þetta opna mót í tilefni af 40 ára afmæli sínu, var að vonum kampakátur með að þetta skyldi gerast þennan dag.

Grundarfirði. Morgunblaðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert